Fara yfir á efnisvæði

Skilmálar unaðsvöruverslana

18.06.2024

Neytendastofa hefur til skoðunar skilmála unaðsvöruverslana við fjarsölu. Stofnunin hafði áður lokið ákvörðun gagnvart tveimur fyrirtækjum þar sem skilmálar voru ekki í samræmi við lög og hefur nú lokið ákvörðun gagnvart tveimur til viðbótar. Stofnunin sendi upphaflega athugasemdir til 11 fyrirtækja og óskaði skýringa eða athugasemda. Neytendastofa hefur nú lokið ákvörðun gagnvart verslunum Kinky og Scarlet með fyrirmælum um að gera úrbætur á skilmálum sínum. Önnur mál eru enn til meðferðar.

Athugasemdir Neytendastofu snúa m.a. að því að aðlaga þurfi skilmála um rétt til að falla frá samningi þannig að rétturinn sé ekki takmarkaður umfram ákvæði laga og upplýsingagjafar vegna galla á vörum. Samkvæmt lögum hafa neytendur ekki rétt til að skila vöru sem keypt er í fjarsölu ef hún er innsigluð af hreinlætis- og lýðheilsusjónarmiðum. Neytendastofa telur þessa undanþágu eiga við um margar vörur frá verslununum en til þess að undanþágan gildi þarf varan að vera innsigluð og skilmálar um þetta skýrir. Ekki er hægt að takmarka rétt neytenda til að falla frá samningi þó vara hafi verið keypt á útsölu.

Ákvarðanirnar má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA