Fara yfir á efnisvæði

Ákvarðanir um brot gegn auglýsingabanni nikótínvara og rafretta

26.06.2024

Neytendastofa hefur haft til skoðunar auglýsingar á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur. Lagði stofnunin sérstaka áherslu á auglýsingar á samfélagsmiðlum, vefsíðum og utan á verslunum. Hefur stofnunin nú birt ákvarðanir gagnvart sex fyrirtækjum um brot gegn auglýsingabanni, þ.e. Djákninn, FVN, Gryfjan, Innflutningur og dreifing, Nicopods og SH Import.

Í ákvörðunum stofnunarinnar er um það fjallað að óheimilt sé að auglýsa vörurnar þ.m.t. á samfélagsmiðlum. Túlka ber hugtakið auglýsing rúmt og falla því þar undir allar myndbirtingar þar sem með beinum eða óbeinum hætti eru sýndar nikótínvörur, rafrettur eða áfyllingar fyrir rafrettur. Þetta á við óháð því hvort fyrirtækið hafi greitt fyrir aukna dreifingu myndanna eða ekki.

Stofnunin lagði jafnframt áherslu á að lýsingar á vörunum í vefverslunum megi ekki ganga lengra en að lýsa þeim með hlutlausum hætti. Þannig teljist það brjóta gegn auglýsingabanni að birta t.d. ítarlegar lýsingar á bragði og upplifun.

Þá er það mat stofnunin að auglýsingar utan á verslunum væru óheimilar, hvort sem um er að ræða ákveðnar vörur, vörumerki eða almenna tilvísun til vöruúrvals seljanda. Að sama skapi mega vörumerki fyrirtækja ekki fela í sér auglýsingu á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur.

Taldi stofnunin tilefni til að beita stjórnvaldssektum í málunum þar sem um skýrt bann við auglýsingum á nikótínvörum og rafrettum er í lögum.


Ákvarðanirnar má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA