Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og neytendayfirvöld hvetja Temu til að virða lögbundin réttindi neytenda
Í kjölfar samræmdrar rannsóknar á viðskiptaháttum Temu, hafa neytendayfirvöld í Evrópu (CPC) og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnt fyrirtækinu að fjöldi viðskiptahátta á vettvangi þess brjóti í bága við neytendaverndarlöggjöf ESB. Því hefur CPC beint því til Temu að laga þessa viðskiptahætti að löggjöf Evrópusambandsins. Mál Temu er enn til rannsóknar og hefur þess verið óskað að fyrirtækið veiti CPC frekari upplýsingar.
Rannsóknin nær yfir margskonar viðskiptahætti sem neytendur standa frammi fyrir þegar þeir versla á Temu. Meðal þeirra eru villandi viðskiptahættir sem geta haft óeðlileg áhrif á ákvörðun neytenda um að eiga viðskipti. CPC rannsakar einnig hvort Temu uppfylli ákveðnar upplýsingaskyldur fyrir markaðstorg á netinu.
Í síðustu viku hóf framkvæmdastjórnin formlega málsmeðferð gegn Temu samkvæmt reglugerð um stafræna þjónustu (DSA). Málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar og sameiginlegar aðgerðir CPC eru hvor annarri til fyllingar og miða að því að tryggja öruggt og áreiðanlegt netumhverfi þar sem réttindi neytenda í Evrópu eru vernduð að fullu.
Frá og með 13. desember mun reglugerð um öryggi vöru (GPSR) gera kröfu um að öll fyrirtæki sem selji vörur sínar innan Evrópusambandsins verði með rekstrareiningu með staðfestu innan sambandsins sem ber ábyrgð á samræmi vöru fyrirtækisins við öryggiskröfur, falli varan undir ákvæði reglugerðarinnar. Þar á meðal eru sérstakar skuldbindingar fyrir markaðstorg sem einblína á neytendur á netinu.
Lykilatriði í samræmdum aðgerðum CPC
CPC samstarfsnetið hefur bent á nokkra viðskiptahætti Temu sem neytendayfirvöldin telja brjóta í bága við löggjöf ESB, svo sem:
• Falskir afslættir: Að gefa ranglega til kynna að vörur séu boðnar með afslætti.
• Þrýstingur við sölu: Að beyta neytendur þrýstingi til að klára kaup með aðferðum eins og röngum fullyrðingum um takmarkaðar birgðir eða ranga kaupfresti.
• Tilneydd leikjavæðing: Að neyða neytendur til að spila leiki á borð við „lukkuhjól“ til að fá aðgang að markaðstorginu á netinu en fela nauðsynlegar upplýsingar um notkunarskilyrði sem tengjast verðlaunum leiksins.
• Villandi eða óljósar upplýsingar: Birta ófullnægjandi og rangar upplýsingar um rétt neytenda til að skila vörum og fá endurgreiðslu. Temu lætur einnig hjá líða að upplýsa neytendur fyrirfram um að pöntun þeirra þurfi að ná ákveðinni lágmarksfjárhæð til þess að þeir geti gengið frá kaupum sínum.
• Falskar umsagnir: Að gefa ófullnægjandi upplýsingar um hvernig Temu tryggir áreiðanleika umsagna sem birtar eru á vefsíðu sinni. Yfirvöld fundu umsagnir sem þau grunar að séu óáreiðanlegar.
• Faldar tengiliðaupplýsingar: Neytendur geta ekki auðveldlega haft samband við Temu með spurningar eða kvartanir.
Að auki óskaði CPC eftir upplýsingum frá Temu til að meta hvort fyrirtækið uppfylli frekari skyldur samkvæmt neytendalögum ESB, svo sem skyldu til að upplýsa neytendur skýrt um hvort að sá sem er að selja ákveðna vöru sé lögaðili eða ekki, skyldu til að tryggja að vöruröðun, umsagnir og einkunnir séu ekki kynntar neytendum á villandi hátt, um skyldu til að tryggja að verðlækkanir séu tilkynntar og reiknaðar rétt og um skyldu til að tryggja að allar umhverfisfullyrðingar séu réttar og studdar gögnum.
Næstu skref
Temu hefur nú einn mánuð til að svara athugasemdunum og leggja til skuldbindingar um hvernig fyrirtækið munu taka á tilgreindum neytendaréttarmálum. Eftir því hvert svar Temu er þá gæti CPC farið í viðræður við fyrirtækið. Ef Temu bregst ekki við áhyggjum CPC þá geta innlend yfirvöld gripið til framfylgdarráðstafana, til að tryggja að farið sé eftir reglum. Þetta felur í sér þann möguleika að leggja á sektir á grundvelli ársveltu Temu í viðkomandi aðildarríkjum.
Fyrir frekari upplýsingar
Fréttatilkynning CPC í heild sinni
Samstarfsnet neytendaverndar (CPC)
Samræmdar aðgerðir CPC-samstarfsnetsins
Samvinnu reglugerðir um neytendavernd