Villandi fullyrðingar um kolefnisjöfnun
Neytendastofa hefur tekið ákvarðanir gagnvart Orkunni IS ehf. og Olís ehf. vegna fullyrðinga um kolefnisjöfnun sem birtust í markaðsefni félaganna.
Í tilviki Orkunnar var um að ræða fullyrðinguna „Jafnaðu þig hjá Orkunni – Kolefnisjafnaðu eldsneytiskaupin með Orkulyklinum strax í dag“. Í svörum Orkunnar kom fram að félagið hafi unnið með Votlendissjóði frá árinu 2018. Samstarfið lýsi sér þannig að viðskiptavinir sem hafi skráð Orkulykilinn sinn í átak Votlendissjóðs geti gefið 5 krónur af 10 króna afslætti sínum til málefna er tengist endurheimt votlendis og þannig kolefnisjafnað eldsneytiskaup sín. Þá kom fram að Orkan telji að fullyrðingar félagsins hafi verið í samræmi við skilgreiningu laga á kolefnisjöfnun. Enn fremur kom fram undir rekstri málsins að í tengslum við stöðvun Votlendissjóðs á sölu kolefniseininga hafi félagið hætt að notast við umrætt orðalag í markaðsefni sínu en bjóði nú viðskiptavinum sínum að styrkja Votlendissjóð.
Í tilviki Olís var um að ræða fullyrðingarnar „Við greiðum helming á móti – Kolefnisjafnaðu eldsneytisviðskiptin“ og „Olís kolefnisjafnar allan sinn rekstur“ Í svörum félagsins kom fram að félagið hafi um langt árabil styrkt landgræðslu á Íslandi með samvinnuverkefni félagsins og Landgræðslu ríkisins. Með vísan til þess verði að telja ljóst að Olís kolefnisjafni eigin rekstur sé horft til þess hvernig það hugtak sé skilgreint, m.a. í íslenskum lögum. Þá kom fram að Olís telji að fullyrðingar félagsins hafi verið í samræmi við skilgreiningu laga á kolefnisjöfnun. Undir rekstri málsins tók félagið hins vegar út fullyrðingar sínar um kolefnisjöfnun og vísar nú til kolefnisbindingar og telur að þær breytingar séu í samræmi við þá hröðu þróun sem sé að eiga sér stað í hugtakanotkun í tengslum við sjálfbærnimál.
Niðurstaða Neytendastofu í báðum ofangreindum málum var að umræddar fullyrðingar væru villandi og óréttmætar gagnvart neytendum og ekki studdar fullnægjandi gögnum. Fullyrðingarnar gefi neytendum ranglega til kynna að eldsneytisviðskipti þeirra hafi engin eða að minnsta kosti minni áhrif á umhverfið og sé þannig líkleg til að hafa áhrif á ákvörðun hins almenna neytanda um að eiga viðskipti við félagið.
Ákvarðanirnar má lesa í heild sinni hér.