Fara yfir á efnisvæði

Stellantis skuldbindur sig til að veita neytendum bætur vegna galla í AdBlue tönkum

30.12.2024

Í kjölfar viðvarana frá neytendasamtökum á Ítalíu og Spáni hvöttu Evrópsku neytendasamtökin (BEUC) samstarf neytendayfirvalda í Evrópu (CPC) til að framkvæma rannsókn í Evrópu á málefnum tengdum AdBlue tönkum í bílum framleiddum af Stellantis.

AdBlue er vökvi hannaður fyrir dísilvélar til að draga úr skaðlegri losun köfnunarefnisoxíðs (nitrogen oxide). Í ljós kom að hugbúnaður í tilteknum dísilbílum framleiddum af Stellantis, þ.e. Peugeot, Citroën, DS og Opel, á tímabilinu janúar 2014 til ágúst 2020, kann að gefa ranglega til kynna að AdBlue tankurinn sé næstum eða alveg tómur, sem leiðir til þess að vélin stöðvast og ekki er hægt að ræsa bifreiðina aftur. Neytendur kvörtuðu yfir því að þetta hafi leitt til viðgerðarkostnaðar.

Stellantis skýrði frá því að tæknileg vandamál hafi komið fram í eldri ökutækjum en nýrri séu búin endurbættum íhlutum.

Í september 2023 var málið rannsakað af neytendayfirvöldum á Ítalíu sem lauk þannig að gert var samkomulag við Stellantis um bætur fyrir neytendur á Ítalíu.

Eftir viðræður við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og CPC samstarfsnetið skuldbatt Stellantis sig til að láta þessar ráðstafanir ná til allra aðildarríkja og að grípa til eftirfarandi ráðstafana:

• Útvíkka samkomulagið fyrir ökutæki Stellantis, þannig að það taki til Peugeot, Citroën, DS og Opel. Þetta nær til endurgreiðslu á kostnaði af varahlutum umfram ábyrgðarkröfur. Litið verður til aldurs og kílómetrastöðu ökutækisins og mun ná til 8 ára frá framleiðsludegi ökutækisins. Aðgerðirnar munu því standa til ársins 2028 fyrir ökutæki framleidd í ágúst 2020. Fyrir bíla sem framleiddir voru fyrir styttra en 5 árum og eknir allt að 150.000 kílómetra bætir Stellantis að fullu kostnað við varahluti. Ef ökutækið er á aldrinum 5 til 8 ára stendur fyrirtækið straum af 30% til 90% af kostnaði við varahluti, allt eftir kílómetrastöðu bifreiðarinnar.
• Til viðbótar við kostnað af varahlutum verða greiddar 30 evrur fyrir kostnað af vinnu við viðgerð.
• Sjá að fullu um kostnað við varahluti og annan viðgerðarkostnað fyrir neytendur sem standa frammi fyrir endurteknum vandamálum.
• Veita afturvirkar bætur til neytenda sem fengu óhagstæðari endurgreiðslur frá 1. janúar 2021.
• Skipuleggja þjálfun starfsmanna til að tryggja að neytendum séu veittar réttar upplýsingar um þær úrbætur sem þeim standa til boða.

Stellantis mun einnig setja upp sérstakan vettvang eða vefsíðu fyrir neytendur sem verða fyrir áhrifum af gallanum til að reikna út bótarétt sinn. Vettvangurinn mun verða aðgengileg frá miðjum janúar 2025.

Fréttatilkynningu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA