Röng upplýsingagjöf Tripical til ferðamanna
Neytendastofa gerði athugasemdir við upplýsingagjöf Tripical til ferðamanna áður en þeir keyptu pakkaferð.
Að mati Neytendastofu gekk Tripical of langt við að skilgreina hugtakið „óverulegar breytingar“ í skilmálum sínum. Í lögum um pakkaferðir er sérstaklega fjallað um hugtakið án þess að löggjafinn skilgreini hvað felist í því. Að mati stofnunarinnar þarf að meta hvað teljist óveruleg breyting á pakkaferð í hverju tilviki fyrir sig út frá þeirri ferð sem um ræðir. Ef skipuleggjendum væru veittar of frjálsar hendur við skilgreiningu hugtaksins taldi Neytendastofa að hætta væri á að lögbundin réttindi ferðamanna skerðist.
Upprunalegt erindi stofnunarinnar varðaði fleiri atriði við upplýsingagjöf Tripical sem samræmdust ekki lögum. Við meðferð málsins gerði félagið ýmsar fullnægjandi breytingar á skilmálum sínum sem Neytendastofa tók tillit til við ákvörðun í málinu. Þá hefur Tripical nú þegar brugðist við ákvörðun stofnunarinnar og breytt skilmálum til samræmis við ákvörðunina.
Ákvörðunina í heild sinni má lesa hér.