Fara yfir á efnisvæði

Landsréttur staðfestir úrskurð áfrýjunarnefndar

13.02.2025

Neytendastofa tók upplýsingagjöf þeirra sem veita neytendalán til skoðunar árið 2019. Í skoðuninni fólst að stofnunin kannaði hvort veittar væru upplýsingar í samræmi við skilyrði laga bæði í stöðluðu eyðublaði sem neytendur eiga að fá afhent fyrir lántöku og í lánssamningi.

Í tilefni skoðunarinnar tók Neytendastofa ákvörðun gagnvart Íslandsbanka þar sem stofnunin beindi fyrirmælum til bankans að bæta úr upplýsingagjöf m.a. um skilyrði fyrir breytingum á vöxtum. Aðrar athugasemdir Neytendastofu snéru að upplýsingum um árlega hlutfallstölu kostnaðar, öðrum lánskostnaði og kostnaði vegna greiðslu eftir gjalddaga. Í málinu er ekki fjallað um áhrif þessa upplýsingaskorts á einstaka lánssamninga heldur felur það í sér að bankinn þurfi að breyta upplýsingagjöf sinni gagnvart nýjum lántökum.

Íslandsbanki kærði ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála sem staðfesti hana með úrskurði sínum. Bankinn stefndi Neytendastofu til ógildingar úrskurði áfrýjunarnefndar og með dómi héraðsdóms Reykjavíkur var úrskurðinn felldur úr gildi m.a. vegna annmarka á málsmeðferð.

Neytendastofa fékk leyfi til áfrýjunar dómsins til Landsréttar þar sem stofnunin fór einnig fram á að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins. Í maí 2024 lá fyrir ráðgefandi álit EFTA dómstólsins sem var Neytendastofu hagfellt.

Landsréttur hefur nú kveðið upp dóm í málinu sem byggir á ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins auk þess sem Landsréttur telur ekki hafa verið slíka annmarka á úrskurði áfrýjunarnefndar að hann skuli ógildur. Niðurstaða Landsréttar er því sú að úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála og þar með ákvörðun Neytendastofu eru staðfest.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA