Fara yfir á efnisvæði

Ný gögn sýna að neytendur bera mikið traust til seljenda en hættur í netviðskiptum eru enn til staðar

18.03.2025

Í tilefni af Alþjóðlegum degi neytenda hefur Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birt skorkort ársins 2025. Skorkortið sýnir að 68% neytenda í Evrópu treysta því að vörur sem þeir kaupa séu öruggar auk þess sem 70% treysta því að seljendur virði réttindi þeirra. Hins vegar sýna gögnin einnig að hættur eru enn til staðar við netviðskipti.

Helstu niðurstöður skorkorts ársins 2025

• 70% neytenda eru sammála því að seljendur og þjónustuveitendur virði réttindi þeirra á meðan 61% neytenda treysta opinberum stofnunin til að standa vörð um hagsmuni þeirra.
• Rafræn viðskipti yfir landamæri aukast þar sem 35% neytenda áttu viðskipti yfir landamæri innan EES og 27% utan EES árið 2024
• Þeir sem kaupa vörur á netinu eru 60% líklegri til að upplifa vandamál við viðskipti, samanborið við þá sem kaupa vörur á sölustað.
• 93% þeirra sem eiga rafræn viðskipti hafa áhyggjur af auglýsingum sem beint er sérstaklega að þeim, söfnun persónuupplýsinga og verðlagningu sem er sérákveðin út fá þeim.
• 45% neytenda höfðu orðið fyrir svindli á netinu og margir upplifðu óréttmæta viðskiptahætti, þar á meðal ósannar umsagnir og villandi verðlækkun.
• 38% neytenda hafa áhyggjur af því að geta greitt reikningana sína og 35% af því að geta greitt fyrir þá matvöru sem þau kjósa helst.
• 74% lýstu því að þau hafi tekið eftir því að pakkningar vöru hafi minnkað á meðan 52% lýstu versnandi gæðum vöru án þess að verð lækki.
• Áhrif vöru á umhverfið þegar tekin er ákvörðun um viðskipti hefur minnkað um 13% frá árinu 2022. Þetta er rakið til verðs á umhverfisvænni kostum og vantrausts neytenda til umhverfisfullyrðinga.

Þegar litið er á helstu niðurstöður Íslands samkvæmt skorkortinu, borið saman við meðaltal allra þátttökuríkja, má sjá að traust neytenda á Íslandi til seljenda og þjónustuveitenda er yfir meðallagi. Þá er töluvert hærra hlutfall íslenskra neytenda sem áttu viðskipti á netinu á s.l. 12 mánuðum en að meðaltali í Evrópu en neytendur hér á landi leggja minni áherslu á umhverfisáhrif vöru við ákvörðun um kaup heldur en neytendur gera að meðaltali í EES ríkjunum.

Lesa má frétt um skorkortið í heild sinni hér.

TIL BAKA