Fara yfir á efnisvæði

Ákvarðanir vegna upplýsinga á netverslunum með reiðhjól

20.03.2025

Neytendastofa hefur tekið ákvarðanir gagnvart Erninum Hjólum, rekstraraðila netverslunarinnar orninn.is, og Cintamani, rekstraraðila netverslunarinnar gap.is.

Í ákvörðunum Neytendastofu komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að félögin hafi brotið gegn lögum sem henni er falið eftirlit með með því að birta auglýsingar og vörulýsingar reiðhjóla ekki á íslensku.

Tilefni ákvarðananna er skoðun sem Neytendastofa gerði á netverslunum með reiðhjól í kjölfar ábendingar um að vörulýsingar væri ekki aðgengilegar á íslensku. Stofnunin skoðaði vefsíður sjö seljenda reiðhjóla og gerði í upphafi athugasemdir við þá alla. Fimm seljendur gerðu breytingar á vefsíðum sínum í kjölfar athugasemdanna og því kom ekki til þess að teknar væru ákvarðanir gagnvart þeim.

Neytendastofa hefur beint þeim fyrirmælum til Cintamani og Arnarins að birta vörulýsingar og auglýsingar á vefsíðum sínum á íslensku innan tveggja vikna frá dagsetningu ákvörðunarinnar. Verði það ekki gert skulu félögin greiða dagsektir þar til farið hefur verið að ákvörðunum stofnunarinnar.

Eftir birtingu á ákvörðunum Neytendastofu hefur Cintamani gert fullnægjandi breytingar á netverslun sinni.

Ákvarðanirnar má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA