Ákvörðun Neytendastofu staðfest að hluta
Neytendastofa tók ákvörðun gagnvart Arnarlaxi vegna fullyrðinga um sjálfbæran lax og sjálfbærni í markaðssetningu og vörumerkjum félagsins.
Í ákvörðun Neytendastofu kom fram að það væri álit stofnunarinnar að notkun Arnarlax á hugtökunum sjálfbær og sjálfbærni væri almenn og óljós, ekki studd nægilegum gögnum og væri því villandi og óréttmæt gagnvart neytendum. Markaðssetningin gefi þannig hinum almenna neytanda ranglega til kynna að laxeldi félagsins í sjókvíum væri að fullu sjálfbært og hafi þannig engin eða í það minnsta hlutlaus áhrif á umhverfið. Að mati Neytendastofu beri að líta til þess að notkun Arnarlax á fullyrðingum sem innihalda hugtökin sjálfbær og sjálfbærni sé nokkuð víðtæk og áberandi. Notkunin væri tengd við orð- og myndmerki félagsins sem komi fram á vefsíðu þess, í blaðaauglýsingum og öðru markaðs- og kynningarefni.
Neytendastofa bannaði því Arnarlaxi notkun fullyrðingar um sjálfbæran lax og sjálfbærni í markaðs- og kynningarefni félagsins.
Áfrýjunarnefnd neytendamála staðfesti ákvörðun Neytendastofu um að banna Arnarlaxi að nota fullyrðingu um að laxeldi félagsins væri sjálfbært og notkun orð og myndmerkja sem vísa til þess að lax frá Arnarlaxi sé sjálfbær.
Hins vegar var felldur úr gildi sá hluti ákvörðunarinnar er sneri að fullyrðingu, sem áfrýjunarnefnd taldi lúta að stefnu félagsins, um að auka sjálfbærni í starfsemi þess og sá hluti sem sneri að broti gegn f. lið 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 57/2005.
Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.