Misvísandi upplýsingagjöf Icelandair
Neytendastofa hefur haft skilmála og upplýsingagjöf Icelandair til skoðunar. Áhersla hefur verið á upplýsingar tengdar því ef farþegi sem kaupir fleiri en einn fluglegg mætir ekki í fyrra flug (e. no-show).
Með ákvörðun nr. 54/2023 komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að neytendum væru ekki veittar nægar upplýsingar í kaupferli og beindi því fyrirmælum til félagsins að bæta úr upplýsingagjöf sinni.
Stofnunin hefur nú fylgt málinu eftir og m.a. komist að þeirri niðurstöðu að Icelandair hafi brotið gegn ákvörðun nr. 54/2023 þar sem ekki hafi verið bætt nógu vel úr upplýsingagjöf. Auk þess gerði Neytendastofa annars vegar athugasemdir við að ósamræmi væri á milli flutningsskilmála og upplýsinga sem veittar eru við kaup og hins vegar þyrfti töluverða leit á vefsíðunni til þess að finna upplýsingar um réttindi og kostnað við að viðhalda seinni flugleggjum ef farþegi ætlar ekki að nýta fyrri flug.
Neytendastofa taldi tilefni til að sekta Icelandair um 500.000 kr. fyrir brotið.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér