Athugun á verðmerkingum í bakaríum á höfuðborgarsvæðinu
Dagana 25 - 27. ágúst sl. gerði Neytendastofa athugun á ástandi verðmerkinga í 53 bakaríum í eigu 24 fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu.
Niðurstöður athugunarinnar eru eftirfarandi:
Verðmerkingar voru í góðu lagi á 34 stöðum af þeim 53 sem voru í úrtakinu eða 64% heimsóttra staða. Í sambærilegri könnun sem gerð var í júní á síðasta ári voru heimsóttir 36 staðir á höfuðborgarsvæðinu og voru 20 af þeim með verðmerkingar í góðu lagi eða 56%. Í þeirri könnun var ekki farið í bakarí sem staðsett eru í stórmörkuðum eins og gert var nú. Núna var eining ákveðið að taka með ástand verðmerkinga í hillum eða stöndum á gólfi sem ekki hafði verið gert áður.
Svo til öll bakaríin, eða 92% þeirra, voru með vel verðmerktar vörur í borði. Ástandið var aftur á móti verra á vörum í kæli og hillum eða stöndum á gólfi. Verðmerkingum í kælum var ábótavant á þremur stöðum en óverðmerkt var á sex stöðum eða 17%. Á síðasta ári voru vörur í kæli óverðmerktar eða verðmerkingum þeirra ábótavant í 43% tilfella. Varðandi hillur eða standa á gólfi var verðmerkingum í sex tilfellum ábótavant og í sex tilfellum var óverðmerkt.
Ástand verðmerkinga var verst í Sandholts bakarí á Laugavegi og Kökulist Fjarðagötu þar sem bæði vörur í borði og kæli voru óverðmerktar. Þess ber að geta að Kornið og Sveinsbakarí, þar sem verðmerkingum var mjög ábótavant á síðasta ári, komu mjög vel út í þessum heimsóknum.
Aðilum sem Neytendastofa telur ástæðu til að gera athugasemdir við vegna ástands verðmerkinga verður sent bréf frá stofnuninni og gefinn kostur á að koma verðmerkingum í viðunandi horf. Könnuninni verður fylgt eftir og ef þurfa þykir teknar ákvarðanir um viðurlög vegna slæms ástands verðmerkinga.
Neytendastofa mun halda áfram verðmerkingaeftirliti og gera athugun hjá fleiri verslunum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu undir nafni með skráningu notenda í þjónustugátt stofnunarinnar eða nafnlausar ábendingar .