Fara yfir á efnisvæði

Þjónusta tengd farsímum kom vel út á Íslandi

18.11.2009

Neytendastofa er aðili að samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd. Einn þáttur í samstarfinu eru samræmdar aðgerðir á ýmsum afmörkuðum sviðum viðskiptalífsins, á ensku nefnt „sweep“.  Aðildarríkin sem taka þátt í aðgerðinni hverju sinni kanna samtímis og með sama hætti í öllum ríkjunum hvort réttindi neytenda séu virt. Neytendastofa hefur m.a. þegar tekið þátt í aðgerðum vegna sölu raftækja á netinu, gegnsæi fargjalda hjá flugfélögum og sölu á þjónustu tengdri farsímum á Netinu.

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú birt niðurstöður samræmdra aðgerða vegna farsíma tengdrar þjónustu. Aðgerðirnar voru ákveðnar í kjölfar gífurlegs fjölda kvartana í Evrópuríkjum um auglýsingar sem lokka neytendur í áskrift, t.d. að hringitónum, á fölskum forsendum. Sérstaklega kvörtuðu foreldrar barna sem geta óvart skráð sig í slíka þjónustu. Í könnuninni kom í ljós að um helmingur þeirra vefsíðna sem selja þjónustu tengda farsímum höfða sérstaklega til barna, s.s. með því að nota teiknimyndapersónur.
Um mikla fjármuni er að ræða í sölu á farsímatengdri þjónustu. Sem dæmi er áætlað að yfir 495 milljónir farsíma séu í eigu Evrópubúa. Sala á hringitónum á þessu markaði var áætluð árið 2007 um 691 milljón evra sem eru um 127 milljarðar ISK.

Niðurstaða aðgerðanna var að 301 vefsíða var ekki í samræmi við lög en nú hafa 52% þeirra verið lagfærðar og 17% hefur verið lokað þannig að 70% þeirra vefsíðna eru komnar í lag. Stjórnvöld í hverju ríki sjá um að lögum sé framfylgt en það er mismunandi milli landa hversu hart er tekið á málum. Sem dæmi hafa stjórnvöld á Ítalíu í kjölfar aðgerðanna lagt sektir á 9 fyrirtæki að fjárhæð samtals 2 milljón evrur sem eru um 370 milljónir ISK.

Neytendastofa kannaði á síðasta ári íslenskar vefsíður sem bjóða til sölu hringitóna, veggfóður/myndir, leiki o.þ.h. Eigendur þeirra vefsíðna sem reyndust ekki uppfylla skilyrði laga brugðust allir við tilmælum Neytendastofu en tekið skal fram að um smávægilegar athugasemdir var að ræða. Eigendur vefsíðnanna færðu vefsíðurnar í rétt horf og ekki var því þörf á frekari aðgerðum af hálfu stofnunarinnar.

Stjórnvöld í öðrum ríkjum munu halda áfram vinnu vegna þeirra vefsíðna sem enn hafa ekki verið lagfærðar. Ákveðið hefur verið að framkvæma fleiri samræmdar aðgerðir með þessum hætti og fyrirhugaðar eru fleiri kannanir og verkefni næstu mánuðina.

TIL BAKA