Nýr samhæfður evrópskur staðall um snuð
Snuð er vara sem allir foreldrar kannast við enda er talið að u.þ.b. 100 milljón snuða séu seld í Evrópu á hverju ári. Notkun vörunnar þarf vart að tíunda, þau fullnægja sogþörf ungabarna og veita þeim (og foreldrum) oft kærkomna ró. Eðli málsins samkvæmt er um að ræða vöru sem ætlað er að vera að hluta til upp í munni yngri barna og oft í notkun þegar börnin eru ekki undir stöðugu eftirliti foreldra sinna. Hönnun og framleiðsla vöru fyrir svo viðkvæman neytendahóp vöru verður fyrst og síðast að taka mið af öryggi þannig að hættan á því að þau geti orsakað köfnunarhættu eða innihaldið efni sem geti verið varasöm sé ekki fyrir hendi.
Í því skyni að auka öryggi og gæði snuða hefur því verið samþykktur samhæfður Evrópskur staðall um snuð, EN 1400 - snuð fyrir börn og ungabörn. Staðallinn gildir einnig hér á landi.
Staðallinn er í þremur hlutum:
Fyrsti hlutinn fjallar um almennar öryggiskröfur snuða og útlistar hvaða merkingar og notkunarleiðbeiningar skuli fylgja vörunni. Annar hluti skilgreinir prófunaraðferðir og sá þriðji fjallar um efnafræði hluta snuða.
Staðlar og þá sérstaklega samhæfðir Evrópskir staðlar gegna því mikilvæga hlutverki að þeir eru viðmið fyrir framleiðendur, hönnuði og ekki síst þá aðila sem gæta eiga þess að vara á markaði sé örugg. Í stöðlum er að finna ákveðnar leiðbeiningar, reglur og skilgreiningar sem miða að því að hluturinn passi, virkni hans sé rétt og að hann sé öruggur. Því má segja að samspilið milli staðla og opinberrar markaðsgæslu um öryggi vöru miði að aukinni neytendavernd út frá tæknilegum forsendum. Tekið skal fram að snuð líkt og önnur barnavara á ekki að vera CE merkt. Hins vegar skal koma fram á umbúðum þeirra leiðbeiningar um notkun og meðhöndlun til þess að tryggja öryggi þeirra.