Fara yfir á efnisvæði

Mikill ávinningur fyrir viðskipti með vörur innan EES

30.07.2008

Innri markaðurinn fyrir vörur mun eflast mjög eftir að aðildarríki ESB og EES-ríkin hafa samþykkt nýjar reglur sem munu fjarlægja síðustu hindranir fyrir frjálsu vöruflæði innan Evrópska efnahagssvæðisins. Smá og meðalstór fyrirtæki munu sérstaklega njóta góðs af hinum nýju reglum sem munu auðvelda þeim að stunda viðskipti utan þeirra takmarkana sem heimamarkaður þeirra setur. Markaðseftirlit fyrir framleiðsluvörur verður styrkt verulega en almennt markaðseftirlit með vörum hér á landi annast Neytendastofa. Jafnframt verður samhæfing markaðseftirlits og eftirlits á vegum tollyfirvalda styrkt. Nýjar reglur munu styrkja enn frekar við notkun á CE-merkinu og efla áreiðanleika þess. Auk þess munu viðskipti með vörur sem ekki falla undir löggjöf ESB verða bætt verulega. Framvegis mun aðildarríki ESB sem hyggst neita að veita vöru aðgang að markaði sínum bera skylda til að ræða við hlutaðeigandi fyrirtæki og rökstyðja nákvæmlega hvers vegna stjórnvöld vilja ekki veita vörunni aðgang að markaðnum, en það auðveldar fyrirtækjum viðskipti með vörur. Hinar nýju reglur munu hafa áhrif á mjög margar framleiðslugreinar en samtals vegur árleg markaðshlutdeild þeirra um 1500 milljörðum evra.
Á Íslandi fer Neytendastofa með framkvæmd laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Á næstu mánuðum mun stofnunin m.a. skoða með hvaða hætti hinar nýju reglur hafa áhrif á laga- og reglugerðarumhverfi hér á landi sem Neytendastofa framfylgir.

Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, Günter Verheugen, sem fer með málefni innri markaðarins, fyrirtækja og iðnaðar segir: Ákvörðun ráðherraráðsins jafngildi meiriháttar ávinningi og framförum fyrir Innri markaðinn enda mun þessi áfangi vera hinn stærsti til að efla viðskipti með vörur síðan að reglur voru samþykktar um frjálst vöruflæði um 1990. Reglurnar munu auðvelda smáum og meðalstórum fyrirtækjum að selja vörur yfir landamæri innan Evrópu án þess að slegið sé af kröfum til öryggi vörunnar. Innri markaðurinn er hornsteinn að samkeppnishæfni Evrópu og þess vegna fagna stjórnvöld mjög þessum áfanga.

Nýju reglurnar skerpa og straumlínulaga reglurnar á innri markaðnum sem gilda um markaðssetningu fyrir fjöldann allan af vörum á Evrópska efnahagssvæðinu enda er þar m.a. kveðið á um:

 • Betri og endurskoðaðar reglur um  markaðseftirlit sem eiga að vernda bæði neytendur og fagmenn frá vörum sem ekki uppfylla öryggiskröfur, þ.m.t. reglur sem gilda um innflutning frá ríkjum utan EES-svæðisins. Hinar nýju reglur eiga einkum við um málsmeðferð sem gildir varðandi vörur sem geta verið hættulegar heilsu neytenda eða umhverfi, en þá ber að innkalla þær af markaðnum;

 • Reglurnar setja strangari reglur um  hvernig meta eigi samræmi vöruframleiðslunnar við staðla sem gilda um öryggi framleiðslu vörunnar og skýrt er nú kveðið á um að tilkynna verður hvaða aðilar hafa réttindi til þess að framkvæma slíkt mat á öryggiskröfum sem gerðar eru til vörunnar (s.s. um prófanir, skoðanir og rannsóknastofur) og jafnframt ber aðildarríkjum að nota í meira mæli en áður faggildingu til þess að staðfesta hæfi og hæfni slíkra aðila til að geta tekið að sér slík störf, en með því að styrkja og auka kröfur til þessara aðila verður tryggt að framleiðendur fái þjónustu við mat á öryggi vörunnar sem framleiðendur, neytendur og stjórnvöld þurfa og gera kröfu til;

 • Reglurnar útskýra betur en áður þýðingu CE merkisins. Auk þess mun CE merkið fá vörumerkjavernd sem mun gefa stjórnvöldum og samkeppnisaðilum rétt til þess að höfða mál og beita viðurlögum gagnvart þeim framleiðendum sem misnota merkið;

Ný lagasetning á þessu sviði er grundvöllur að sameiginlegum reglum fyrir vöruframleiðslu í iðnaði og verkfærakista fyrir allar stjórnvaldsaðgerðir í framtíðinni. Þar er að finna sameiginlegar og einfaldar skilgreiningar (á hugtökum sem oft eru misnotuð) svo og málsmeðferðarreglur sem eiga að stuðla að því að löggjöfin verði heildstæðari og auðveldari í framkvæmd.

Reglurnar styrkja einnig verulega Innri markaðinn varðandi breitt vörusvið þar sem ekki gilda samræmdar ESB reglur um framleiðsluna, s.s. ýmis konar matvörur (t.d. brauð og pasta); húsgögn, reiðhjól, stigar, eðalmálmar, o.fl. Samanlagt mynda þessir vöruflokkar um 15% af öllum vöruviðskiptum innan Evrópusambandsins.  Um framleiðslu framangreindrar vöru gilda oft flóknar sérreglur í hverju landi fyrir sig. Fram til þessa hefur þessi mismunur á reglum sem gilda um vöruframleiðsluna valdið því að mörg fyrirtæki hafa ekki treyst sér til þess að framleiða vörur og setja á markað í öðru EES-ríki, ekki síst smá og meðalstór fyrirtæki, enda oft þurft að sanna sérstaklega að vöruframleiðsla þeirra uppfylli kröfur sem önnur ríki gera varðandi öryggi framleiðsluvörunnar. Í öðrum tilvikum var fyrirtækjum oft gert skylt að gera kostnaðarsamar og oft óþarfar aðlaganir á vöruframleiðslu sinni þannig að varan varð mun dýrari til neytenda en þörf var á.

Þessar nýju reglur munu því ryðja úr vegi ýmsum tæknilegum hindrunum fyrir markaðssetningu vöru á Evrópska efnahagssvæðinu.  Innlendar sérreglur eiga því ekki lengur að standa því í vegi að löglega markaðssett vara í öðru EES ríki sé seld og sett á markað í öðru ríki innan svæðisins. Aðildarríki sem vill neita vöru um markaðsaðgang verður að rökstyðja það nákvæmlega og veita innflytjanda andmælarétt áður en slík ákvörðun er tekin. Tilfærsla sönnunarbyrðarinnar yfir á stjórnvöld mun því spara fyrirtækjum verulega mikinn og oft á tíðum óþörf fjárútlát.

Í reglunum er einnig gert ráð fyrir að í öllum ríkjum sé tilnefnd tengiskrifstofa fyrir vörur. Þær munu veita upplýsingar um innlendar reglur sem fyrirtæki, einkum smá og meðalstór fyrirtæki, eiga að geta treyst á að gildi í viðkomandi ríki þar sem þau vilja selja vörur sínar.  Áætlað er að innleiðing á hinum nýju reglum í íslenskan rétt skuli lokið fyrir árið 2010.

Nánari upplýsingar eru að finna hér:

http://ec.europa.eu/enterprise/regulation/internal_market_package/index_en.htm

TIL BAKA