Fara yfir á efnisvæði

Látum ekki rafmagnið setja brennimark sitt á heimilið um jólin

21.12.2006

Rafmagn er einn stórvirkasti brennuvargur nútímans. Á hverju ári verða margir eldsvoðar sem eiga upptök sín í rafbúnaði. Stundum kviknar í vegna bilunar en oftast er um að ræða að gáleysi í umgengni við rafmagn valdi slysum eða íkveikju. Jólin eru hátíð ljóssins og er þá kveikt á fleiri ljósum og þau oft látin loga lengur en  aðra daga ársins. Hluti af undirbúningi jólanna á að vera að ganga úr skugga um að þau ljós sem nota á séu í góðu lagi. Óvandaður, skemmdur og rangt notaður ljósabúnaður getur valdi bruna og slysum.
 

Atriði sem vert er að hafa í huga:

  • látum aldrei loga á ljósunum á jólatrénu yfir nótt eða þegar við eru að heiman
  • hendum gömlum jólaljósum sem eru úr sér gengin
  • notum ætíð ljósaperur af réttri gerð, stærð og styrkleika
  • gætum þess að brennanleg efni séu ekki nálægt jólaljósum
  • óvarinn rafbúnaður getur valdið raflosti
  • vörum okkur á óvönduðum jólaljósum
  • inniljós má aldrei nota utandyra
  • förum eftir leiðbeiningum um uppsetningu og notkun
  • látum logandi kerti aldrei standa ofan á raftæki
  • góður siður er að skipta um rafhlöður í reykskynjurum fyrir hver jól.

Notum réttar perur og látum ljósin ekki loga yfir nótt

Engin jólaljós eru svo örugg að hægt sé að útiloka íkveikju af þeirra völdum. Varasamt er að láta loga á jólaljósakeðjum (jólaseríum) sem og öðrum jólaljósum innanhúss yfir nótt eða þegar við erum að heiman. Þetta á ekki síst við um ljós á jólatrjám.

 

Flestar nýrri ljósakeðjur til notkunar innandyra eru þannig gerðar að þegar ein pera „deyr“ logar áfram á hinum. Eftir því sem logar á færri perum eykst ljósstyrkur hverrar peru og þar með hitinn. Ljós sem ofhitna geta auðveldlega valdið bruna. Því ber að skipta strax um bilaðar perur í ljóskeðjum og hafa í huga að nota rétta gerð af peru. Röng gerð, stærð eða styrkur getur valdið ofhitnun sem leiðir til íkveikju. Til þess að fá örugglega rétta peru í stað bilaðrar er best að taka ljósabúnaðinn með sér þegar ný er keypt.

 

Ljós og brennanleg efni eru hættuleg blanda

Vegna hitans sem stafar frá ljósaperum er mikilvægt að alltaf sé nægileg fjarlægð frá ljósi í brennanlegt efni. Rafljós geta t.d. kveikt í gluggatjöldum engu síður en kertaljós. Sýnum sérstaka varúð gagnvart jólastjörnum og öðru pappírsskrauti sem sett er utan um ljósaperur. Ef ljósapera liggur við brennanlegt efni eins og pappír er mikil hætta á íkveikju.

 

Logandi kerti eru vitaskuld alltaf varasöm en komist þau í kynni við rafmagn er hætta á ferðum. Því er brýnt að láta keri aldrei standa ofan á raftækjum eins og sjónvarpi eða hljómflutningstækjum. Kerið getur brætt sér leið niður í tækið og kveikt í því. Einnig getur kveikurinn fallið logandi af kertinu ofan í tækið eða vax lekið niður í það og valdið íkveikju.

 

Notum ekki úr sér gengin ljós

Algengt er að fólk haldi upp á gömul jólaljós sem eru úr sér gengin. Oft endar þessi hirðusemi með íkveikju eða slysi af völdum ljósanna. Réttast er að henda gömlu ljósunum eða láta fagmann yfirfara þau ef minnsti grunur leikur á að þau séu í ólagi.

 

Þegar farið er yfir jólaljósin er áríðandi að skipta tafarlaust um brotnar klær og brotin perustæði. Göngum einnig úr skugga um að allar rafmagnsleiðslur séu heilar, að einangrun sé alls staðar í lagi og að ekki sjái í bera víra.

 

Ekki er til neitt eitt ráð til að ganga úr skugga um hvort jólaljós séu af vandaðri gerð. Vert er þó að hafa í huga að sérlega ódýr jólaljós eru yfirleitt ekki eins vönduð og dýrari ljós af svipaðri gerð. Gæði og öryggi fara saman í þessu sem öðru.

 

Notum aldrei inniljós úti

Jólaljós utandyra eiga að vera sérstaklega gerð til slíkra notkunar. Á öllum jólaljósum eða umbúðum þeirra, sem seld eru hér á landi sem inniljós, á að standa á íslensku að þau séu eingöngu til notkunar innanhúss. Að nota inniljós utandyra getur verið lífshættulegt. Útiljósakeðjur eiga að vera vatnsvarðar. Brýnt er að perur útiljósa vísi ávallt niður svo að ekki sé hætta á að vatn safnist í perustæðin. Einnig er mikilvægt að festa útiljós vandlega þannig að perur geti ekki slegist við og brotnað.

 

Mikil aukning hefur orðið á undanförnum árum í notkun svokallaðra „slönguljósa“ sem hægt er að kaup í metravís. Því miður er nokkuð um íkveikjur af völdum slíkra ljósa og nær undantekningarlaust er það vegna þess að ekki er vandað nægilega til samsetninga. Það  er því afar brýnt að fá nákvæmar leiðbeiningar frá söluaðilum um samsetningu slíkra ljóskeðja og fara eftir þeim í einu og öllu.

 

Þá hefur einnig orðið mikil aukning í notkun ljóskeðja með hliðtengdum perum sem ekki hitna mikið og eru þær oft hafðar með ýmis konar skreytingum eða látnar í hrúgu í skálar. Mikilvægt er að hafa í huga að þannig má alls ekki nota þær ljósakeðjur sem algengastar hafa verið á markaðnum undanfarin ár, þ.e. þessar hefðbundnu grænu með litlum útskiptanlegum perum, þær geta hitnað of mikið og valdið íkveikju.

 

Sjá einnig bæklinginn „Jólaljós og rafmagnsöryggi“ 

 

 

 

 

TIL BAKA