Fara yfir á efnisvæði

Könnun á skólamáltíðum

03.06.2011

Neytendastofa gerði könnun á verði skólamáltíða og sendi öllum 76 sveitarfélögum landsins fyrirspurn. Svör fengust um verðlagningu og verðmyndun frá 157 grunnskólum í 68 sveitarfélögum, en sex sveitarfélög starfrækja ekki grunnskóla. Engar upplýsingar bárust frá Vesturbyggð og Kaldrananeshreppur býður ekki upp á skólamáltíðir.

Í lögum um grunnskóla er heimilt að láta nemendur greiða allan kostnað vegna máltíða en í framkvæmd eru mörg sveitarfélög sem láta nemendur aðeins greiða hráefniskostnað. Í sumum sveitarfélögum eru nemendur látnir greiða hluta af föstum kostnaði vegna máltíðanna.

Í könnuninni var spurt hvort nemendur greiði í fyrsta lagi allan kostnað, í öðru lagi hráefni og hluta af kostnaði eða í þriðja lagi eingöngu hráefnið. Ekkert mat var lagt á gæði og þjónustu máltíða.
Þrír skólar bjóða nemendum sínum upp á ókeypis skólamáltíðir en það eru Valsárskóli í Svalbarðsstrandarhreppi, Stóru Vogaskóli í Sveitarfélaginu Vogum, og Laugaland í Ásahreppi.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru eftirfarandi:

• Nemendur greiða allan kostnað í 11 skólum í tveimur sveitarfélögum, Akureyri og Álftanesi, s.s. hráefni, laun, rekstur, viðhald, o.fl. Á Akureyri greiddu nemendur 415 kr. og á Álftanesi greiddu nemendur 468 kr.

• Nemendur greiða hráefni og hluta kostnaðar s.s. laun, rekstur, viðhald, o.fl. í alls 77 skólum í 21 sveitarfélagi. Lægsta verð var 224 kr. í Gerðaskóla í sveitarfélaginu Garði, og hæsta verð 526 kr. fyrir börn í 8.-10. bekk Reykhólaskóla í Reykhólahreppi. Meðalverð var 297 kr.

• Nemendur greiða eingöngu hráefni í 66 grunnskólum í 43 sveitarfélögum.
Lægsta verð var 110 kr. hjá 1.-4. bekk í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit. Grunnskóli Sandgerðis í Sandgerðisbæ var með lægsta verð fyrir áramót en hækkaði verð máltíða frá áramótum í 190 kr. Hæsta verð var 460 kr. í Laugargerðisskóla í Eyja- og Miklaholtshreppi fyrir nemendur í 4.-10. bekk. Meðalverð var 303 kr.

Nánari upplýsingar um könnunina má finna hér.

Neytendastofa gerði sambærilega könnun árið 2007 þegar virðisaukaskattur var afnumin af matvörum.  Niðurstöður þeirrar könnunar má skoða hér.

Nánari upplýsingar veitir Eva Sigrún Óskarsdóttir, s.510 11 00.

Reykjavík 3. júní 2011.

TIL BAKA