Neytendastofa í 1. sæti í úttekt á opinberum vefjum
Allt frá stofnun Neytendastofu árið 2005, hefur stofnunin lagt mikla áherslu á að nýta tölvutæknina til hagsbóta fyrir neytendur. Neytendastofa hefur því boðið upp á skilvirka rafræna stjórnsýslu í þeim tilgangi að opna aðgengi almennings að stjórnsýslunni. Það er því sérstök ánægja að geta sagt frá því að stofnunin hafnaði í 1. sæti í úttekt á opinberum vefjum ríkis og sveitarfélaga árið 2011 með einkunnina 95 af 100. Í úttektinni voru skoðaðir vefir 267 stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga.
Verkefnahópur frá forsætisráðuneyti, innanríkisráðuneyti, Þjóðskrá og Deloitte stóðu að úttektinni sem gerð er annað hvert ár en er þetta í fjórða skipti sem úttekt af þessu tagi er framkvæmt. Árið 2009, þegar þessi könnun var gerð síðast, var Neytendastofa í 6. sæti af alls 154 ríkisstofnunum. Tilgangur úttektarinnar er að greina stöðu vefja opinberra aðila og sveitafélaga á Íslandi og auka vitund opinberra aðila um það hvar þeir standa í samanburði við aðra. Einkunnagjöf felur í sér hversu vel vefir uppfylla skilyrði er varða fjóra þætti: innihald, nytsemi, aðgengi og þjónustu. Sjá niðurstöður úttektarinnar.
Auk þess má geta að sérstök dómnefnd valdi úr 5 efstu vefina. Af þeim var vefur Tryggingastofnunar valinn besti vefur ríkisstofnanna og vefur Akureyrarbæjar besti vefur sveitafélaga.