Fara yfir á efnisvæði

Réttindi neytenda

10.08.2011

Réttindi neytenda – samkomulag um ný drög að tilskipun
Drög að tilskipun um réttindi neytenda hafa verið til meðferðar á vettvangi ESB í alls 32 mánuði en þann 15. júní s.l. var samstöðu náð meðal aðildarríkja ESB.  Nýja tilskipunin mun einfalda reglur um réttindi neytenda einkum á sviði netviðskipta á milli EES-ríkjanna. Formaður þingnefndar í Evrópuþinginu og nokkrir þingmenn gerðu þó fyrirvara um orðalag á reglum sem gilda eiga um endurgreiðslu á kostnaði þegar vörum er skilað auk annarra smávægilegra orðalagsbreytinga. Þegar þeirri yfirferð lýkur verður tilskipunin formlega samþykkt af hálfu Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB. Gert er ráð fyrir því að öll aðildarríki innleiði í sína löggjöf nýjar reglur eigi síðar en árið 2013.

Upplýsingar, réttindi og skyldur
Nýja tilskipunin mun gilda um samninga sem gerðir eru á milli neytenda og seljenda á vörum og þjónustu, en ákvæði hennar taka einnig til sölu á rafmagni, vatni og hitaveitum sem opinberir aðilar reka. Í tilskipuninni er að finna ítarleg ákvæði um hvaða upplýsingar skylt er að veita neytendum áður en samningur er gerður en þar er einnig að finna ítarleg ákvæði um réttindi og skyldur aðila að samningi, einkum og sérílagi þegar um er að ræða samninga utan fastra starfsstöðva. Samkvæmt hinum nýju reglum þá verður neytendum heimilt að skipta um skoðun innan 14 daga frá því að þeir hafa gert kaupsamninginn enda noti þeir eitt samræmt skjalasnið um rétt til að falla frá samningi sem verður eins í öllum EES-ríkjunum. Hafi seljandi ekki upplýst neytanda um rétt hans til að falla frá samningi þá getur þetta tímabil verið allt að 1 ár. Þegar að neytandi hefur endursent vöru á sinn eigin kostnað þá ber seljanda að andvirði hins selda innan 14 daga.  Þrátt fyrir að flestir þingmenn Evrópuþingsins hefðu kosið að neytendur gætu án kostnaðar endursent vöruna þá náðist fram sú málamiðlun við samþykkt reglnanna að seljendur verða að tilgreina á með skýrum hætti hver sé kostnaður neytanda við að skila hlutaðeigandi vöru, eða þjónustu, ef til þess kemur að hann ákveður að falla frá samningnum.

Í hinni nýju tilskipun er einnig að finna undanþáguákvæði fyrir iðnaðarmenn og smáfyrirtæki varðandi rétt neytenda til að falla frá samningi, s.s. þegar þeir óska eftir viðgerð eða viðhaldi sem ekki má bíða. Þar er einnig undanþáguákvæði um að ekki þurfi við sölu utan fastra starfsstöðva að veita neytendum skriflegar upplýsingar um réttindi þeirra þegar um er að ræða samninga um kaup á vöru eða þjónustu sem er að andvirði 200 evrur eða minna. Í slíkum tilvikum er fullnægjandi að seljandi veiti þessar upplýsingar munnlega. Kaupsamningar um vöru eða þjónustu sem neytendur gera og eru að andvirði 50 evrur eða minna eru alfarið undanþegnir ákvæðum hinnar nýju tilskipunar.

Nánari upplýsingar um samþykkt tilskipunarinnar má finna á eftirfarandi vefslóð Evrópuþingsins: http://www.europarl.europa.eu/activities/committees/subjectFilesCom/subjectFileCom.do?language=EN&id=20101117CDT95928&body=IMCO

Auk þess má sjá tilkynningu frá EP um samþykkt tilskipunarinnar hér.

TIL BAKA