Fara yfir á efnisvæði

Eftirlit Neytendastofu í kvikmyndahúsum skilar góðum árangri

09.07.2010

Fréttamynd

Í lok maí sl. fóru starfsmenn Neytendastofu í eftirlit með verðmerkingum í kvikmyndahúsum á höfuðborgarsvæðinu. Kvikmyndahúsin eru sex talsins, skoðað var hvort vörur í afgreiðsluborði væru verðmerktar og hvort gefið væri upp kílóverð á nammibörum þar sem það átti við.

Í þessari ferð kom í ljós að nammibarir voru allstaðar vel verðmerktir og fjögur af sex kvikmyndahúsum voru með allar verðmerkingar í lagi. Það voru Sambíóin í Kringlunni og Laugarásbíó sem voru ekki með verðmerkingar í afgreiðsluborði í lagi í þetta sinn. Í seinni heimsókn til þeirra voru þessar verðmerkingar komnar í lag.
Þetta eru miklar framfarir frá könnun sem gerð var í desember 2009 en þá voru engar verðmerkingar á nammibörum og verðmerkingum ábótavant í afgreiðsluborði hjá fimm af sex kvikmyndahúsum.

Mjög ánægjulegt er að sjá fyrirtæki taka svona vel við sér, þarna er eftirlit Neytendastofu greinilega að virka sem skyldi, ásamt hinum ómissandi ábendingum neytenda. Hvetjum við neytendur til að aðstoða okkur við nauðsynlegt aðhald og eftirlit með því að senda inn ábendingar á www.neytendastofa.is.

TIL BAKA