Fara yfir á efnisvæði

Laus handföng á könnum kaffivéla frá Philips.

07.04.2002

Nýlega barst rafmagnsöryggisdeild Löggildingarstofu ábending þess efnis að hér á landi hefði orðið það óhapp að handfang glerkönnu sem fylgir kaffivél losnaði með þeim afleiðingum að af hlaust brunasár auk skemmda á innanstokksmunum. Um er að ræða kaffivél af gerðinni Philips Essence HD 7603 þar sem handfangið er fest við könnuna með lími á tveimur stöðum.

Í framhaldi af slysinu lét rafmagnsöryggisdeild Löggildingarstofu skoða kaffivélar af umræddri gerð. Sú skoðun leiddi ekki í ljós að festingum handfangsins væri ábótavant en þó kom í ljós að á nýrri gerðum hafði festingum þess verið breytt. Auk límsins hafði var komin málmklemma við efri brún könnunar til frekari styrkingar á festingu handfangsins.

Við frekari eftirgrennslan hjá Philips í Hollandi kom fram að þar höfðu menn vitneskju um að galli gæti leynst í límingu handfanga á könnum sem framleiddar voru á ákveðnu tímabili. Skv. upplýsingum þeirra höfðu farið fram rannsóknir og áhættugreining á umræddum galla en málið ekki talið það alvarlegt að ástæða væri til að innkalla könnurnar.

Af þessu tilefni hefur gæðadeild Philips í Hollandi óskað eftir að eftirfarandi komi fram:

?Philips hefur komist að raun um að á mjög takmörkuðum fjölda kaffivéla af gerðunum HD 7603, HD 7605, HD 7607 og HD 7609 getur handfangið losnað af könnunni. Losunin á sér stað smám saman og verður orðin greinileg áður en handfangið losnar alveg. Strax og þetta varð ljóst var samsetningu breytt þannig að festing handfangsins var styrkt til að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig.?

Löggildingarstofa hvetur eigendur kaffivéla að umræddri gerð til að vera á varðbergi og skipta þegar í stað um könnu verði þeir varir við los á handfanginu. Fólki er bent á að snúa sér í því sambandi til viðkomandi söluaðila.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Ágústsson hjá rafmagnsöryggisdeild Löggildingarstofu í síma 510 1100.

TIL BAKA