Fara yfir á efnisvæði

Síminn gat ekki sannað fullyrðingu um ódýrustu GSM áskriftina

21.05.2010

Fréttamynd

Í kjölfar frétta af samanburðarreiknivél Póst- og fjarskiptastofnunar á verði farsímaþjónustu birti Síminn auglýsingar þess efnis að félagið byði ódýrustu GSM áskrift á Íslandi. Vodafone og Nova kvörtuðu til Neytendastofa yfir auglýsingunum þar sem fullyrðingin væri ekki rétt og Síminn gæti ekki byggt auglýsingu á niðurstöðum samanburðarreiknivélar Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem hún væri enn á undirbúningsstigi.

Í ákvörðuninni er um það fjallað að Neytendastofa telji almennt ekkert því til fyrirstöðu að niðurstöður verðsamanburðar Póst- og fjarskiptastofnunar séu notaðar til auglýsinga. Fullyrðingarnar verða þó að vera í samræmi við niðurstöður samanburðarins og viðeigandi á þeim tíma sem þær eru settar fram. Póst- og fjarskiptastofnun hafði ekki staðfest þann samanburð sem fullyrðingar Símans byggðu á eða birt reiknivélina opinbera. Neytendastofa taldi vísun Símans til samanburðarins því ekki geta staðið til sönnunar fullyrðingunni. Þá er samanburðurinn byggður á ýmsum forsendum og tekur ekki tillit til notkunar hvers og eins neytanda. Þær upplýsingar komu ekki fram í auglýsingum Símans og neytendur gátu ekki aflað sér þeirra þar sem reiknivélin hafði ekki verið gerð opinber.

Neytendastofa bannaði birtingu auglýsinganna þar sem stofnunin taldi Símann ekki hafa sannað fullyrðingu sína um að félagið byði ódýrustu GSM áskrift á Íslandi auk þess sem upplýsingar um forsendur fullyrðingarinnar komu ekki fram.

Ákvörðun nr. 26/2010 má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA