Fara yfir á efnisvæði

Matvöruverslanir stórbæta verðmerkingar

15.02.2010

Á síðustu vikum hafa starfsmenn Neytendastofu farið í 74 matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu og kannað verðmerkingar og samræmi hillu- og kassaverðs á 50 vörum.  Kom fram að 59 af 74 verslunum voru með verðmerkingar að mestu í lagi. Þar af voru tíu verslanir með allar verðmerkingar réttar: fjórar verslanir 10-11 við Barónsstíg, Eggertsgötu, Seljaveg og í Lágmúla, tvær verslanir 11-11 við Skúlagötu og Kirkjustétt, Bónus Hjallahrauni, Hagkaup Eiðistorgi, Samkaup-Strax Hófgerði og Samkaup-Úrval Miðvangi.  Eru þetta miklar framfarir frá síðustu könnun sem gerð var í nóvember 2009.  Í þeirri könnun kom fram að yfir helmingur matvöruverslana voru með vörur óverðmerktar og/eða rangt verðmerktar.  Í þessari könnun var Krónan Hvaleyrarbraut með 22% af vörum óverðmerktar og/eða rangt verðmerktar og Hagkaup Litlatúni 20% en í fyrri könnun voru 11 verslanir með yfir 20% vitlaust verðmerkt.

Af þessu má sjá að verslunareigendur eru á réttri leið með verklag við verðmerkingar þó vissulega megi enn bæta það á sumum stöðum. Einnig er mikilvægt að hafa verðmerkingar skýrar og greinilegar, t.d. má  gera verðmerkingar í grænmetiskælum sýnilegri á mörgum stöðum.

Ábendingar um skort á verðmerkingum og/eða rangar verðmerkingar er auðvelt að senda inn í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is

TIL BAKA