Fara yfir á efnisvæði

Sölubann á hlífðarhjálma

10.12.2010

Fréttamynd

Neytendastofa hefur lagt bann á sölu hlífðarhjálma sem seldir eru undir vöruheiti Latabæjar.  Hjálmarnir sem eru af gerðinni ATLAS eru framleiddir í bláum lit með mynd af íþróttaálfinum og bleikum lit með mynd af Sollu stirðu. Innflytjandi hjálmanna er Safalinn ehf. 

Ákvörðun Neytendastofu felur í sér að Safalanum ehf. ber að fjarlægja öll óseld eintök hjálmanna af markaði þegar í stað. Upplýsingar liggja fyrir um að hjálmarnir hafi meðal annars verið til sölu í verslunum Hagkaups í Smáralind.

Umbúðir hjálmanna hafi verið ranglega merktar og ekki í samræmi við lög, reglur og staðla sem um framleiðslu þeirra gilda. Merkingar gefa til kynna að þá megi nota á skíðum en svo er ekki og skulu þeir eingöngu notaðir á reiðhjólum, hjólaskautum og hjólabrettum. Á umbúðum er röng staðhæfing um að hjálmarnir séu vottaðir af Forvarnarhúsi Sjóvá, Umferðastofu og Slysavarnarfélaginu. Stærðarmerkingar á umbúðum eru ekki í samræmi við merkingar á hjálmunum sjálfum en þeir eru ætlaðir fyrir börn með höfuðstærð 54 -58 cm en ekki 49 - 57 cm líkt og fram kemur á umbúðum. Einnig vantar upplýsingar um númer staðals á umbúðir og að hjálminn megi ekki nota við ákveðnar aðstæður, s.s. klifur.  Engar tilkynningar hafa borist Neytendastofu um slys af völdum hjálmanna.

Ávörðun Neytendastofu í  heild má lesa hér.

TIL BAKA