Fara yfir á efnisvæði

Niðurstöður eftirlits Neytendastofu með verðlækkunum veitingahúsa

18.04.2007

Viðskiptaráðherra óskaði eftir því að Neytendastofa hefði eftirlit með því hvort breytingar sem ríkisstjórn Íslands samþykkti á skattlagningu matvæla og sem tók gildi 1. mars 2007 myndi skila sér í verðlækkun til neytenda.

Hinn 1. febrúar opnaði Neytendastofa rafræna vefgátt á heimasíðu sinni gagngert fyrir neytendur þar sem þeim gafst tækifæri á því að koma að nafnlausum ábendingum vegna skattalækkunarinnar. Auglýsingar voru birtar í dagblöðum þar sem neytendur voru hvattir til þess að „standa vaktina saman“ og fylgjast með og láta vita hvort lækkun virðisaukaskatts skilaði sér ekki. Auk þess aflaði Neytendastofa gagna um verð hjá 84 veitingahúsum um land allt fyrir og eftir skattabreytinguna. Á fundi með viðskiptaráðherra, Jóni Sigurðssyni, í dag var lögð fram samantekt um niðurstöður á framangreindu eftirliti stofnunarinnar.

Ljóst er af ofangreindri samantekt að ætla má að hjá meirihluti veitinga- og kaffihúsa eða alls í um 54% tilvika hafi verðið ekki lækkað eða sé óbreytt.
Í 46% tilvika hafði verð lækkað í kjölfar skattalagabreytingarinnar.

Neytendastofa hefur einnig fylgt eftir ábendingum og kvörtunum sem borist hafa stofnuninni. Neytendastofa sendi bréf til veitinga- og kaffihúsa og einnig til mötuneyta sem ekki höfðu lækkað verð. Hlutaðeigandi voru hvattir til að lækka verð í samræmi við lækkun á virðisaukaskatti. Einnig var spurt um ástæður þess að verð hafði ekki lækkað.

Um 47% þeirra veitingahúsa sem fengu bréf frá stofnuninni eftir ábendingar frá neytendum kváðust þegar hafa lækkað verð.
Í 53% tilvika bárust ekki svör frá veitingahúsum eða þau kváðust ekki ætla að lækka verð.

Af athugun Neytendastofu má einnig ætla að um 70% mötuneyta sem stofnunin sendi fyrirspurn til hafi ekki lækkað verð. Í samantekt Neytendastofu kemur jafnframt fram að einungis 12 mötuneyti eða 26% þeirra mötuneyta sem athugun Neytendastofu náði til hafi lækkað verð í tengslum við skattabreytingar ríkisstjórnarinnar sem tóku gildi 1. mars 2007.

Skýrsluna í heild er að finna hér.

TIL BAKA