Fara yfir á efnisvæði

Gagnagrunnur ESB um ætluð brot fyrirtækja á löggjöf til verndar neytendum

30.09.2008

Fréttamynd

Á Íslandi hafa verið sett lög nr. 56/2007 um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.  Neytendastofa er samkvæmt ákvæðum laganna miðlæg tengiskrifstofa fyrir samstarfið á Íslandi en auk þess taka Lyfjastofnun, Fjármálaeftirlitið, Flugmálastjórn og útvarpsréttarnefnd þátt í samstarfinu varðandi löggjöf er varðar neytendur og fellur undir eftirlitssvið þeirra.

Samkvæmt ákvæðum laganna ber framangreindum stjórnvöldum að veita gagnkvæma aðstoð við eftirlit á lögum um neytendavernd á Evrópska efnahagssvæðinu, vinna sameiginlega að því að rannsaka ætluð brot fyrirtækja gagnvart neytendum og stöðva eða koma í veg fyrir brot þegar það á við. Neytendastofu hafa nú þegar borist slíkar beiðnir frá erlendum samstarfsaðilum svo og viðvaranir varðandi ætluð brot fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu.

Framkvæmdastjórn ESB viðheldur rafrænum gagnagrunni sem geymir og vinnur upplýsingarnar sem berast á grundvelli framangreindra laga frá íslenskum eftirlitsstofnunum sem og samsvarandi eftirlitsstofnunum á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi gagnagrunnur er einungis aðgengilegur lögbærum yfirvöldum til skoðunar. Nánar er fjallað um valdheimildir stjórnvalda og úrræði í lögum nr. 56/2007, um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu.
Fulltrúi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (Guadalupe Perez) hefur haldið námskeið á Íslandi dagana 23. - 24. september fyrir starfsmenn þeirra íslensku eftirlitsstofnana sem tengdar eru gagnagrunni Evrópusambandsins. 

Nánari upplýsingar veita Þórunn Anna Árnadóttir og Hjördís B. Hjaltadóttir, Neytendastofu.

Lög nr. 56/2007, um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd má nálgast hér.

TIL BAKA