Himnesku ehf. bönnuð notkun firmaheitis, vörumerkja og léns
Neytendastofa hefur bannað Himnesku ehf. notkun firmaheitisins Himneskt, vörumerkjanna HIMNESK og HIMNESKT og lénsins himnesk.is.
Þegar fyrirtækið Himnesk hollusta ehf. varð gjaldþrota keyptu Bio Vörur ehf. vörumerkið HIMNESK HOLLUSTA, lager fyrirtækisins og lénið himneskt.is. Stuttu síðar hóf fyrrum eigandi Himneskrar hollustu sams konar rekstur í nafni fyrirtækisins Himneskt ehf., fékk skráð orð- og myndmerkin HIMNESK og HIMNESKT og lénið himnesk.is.
Að mati Neytendastofu er orðið himneskt almennt og lýsandi fyrir þær heilsuvörur sem báðir aðilar selja. Þar sem aðilar eru í samkeppni og miða vörur sínar að sama markhópi telur stofnunin að heiti á fyrirtæki, vörumerkjum og léni Himnesks séu til þess fallin að villst verði á því og vörumerki Bio Vara. Stofnunin fær ekki betur séð en með því að velja framangreind heiti hafi Himneskt ehf. ætlað að nýta sér viðskiptavild vörumerkisins HIMNESK HOLLUSTA og hafa þannig áhrif á eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins.
Ákvörðun Neytendastofu má lesa í heild sinni hér.