Verðlagsábendingar frá almenningi
Í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun á virðisaukaskatti af matvælum og þjónustu veitinga- og gistihúsa frá og með 1. mars. 2007 telur Neytendastofa nauðsynlegt að virkja almenning til eftirlits með verði á vörum og þjónustu við þessi tímamót.
Neytendastofa vill því hvetja alla neytendur í landinu til að taka virkan þátt í aðhaldi og eftirliti með því að verðlagsbreytingar skili sér til neytenda.
Á heimsíðu Neytendastofu www. neytendastofa.is hefur af þessu tilefni verið opnuð vefgátt undir nafninu:
„Verðlagsábendingar – Láttu vita!“
Á vefgáttinni geta neytendur með einföldum og skjótvirkum hætti komið á framfæri ábendingum um það hvort fyrirhugaðar verðlagsbreytingar komi til framkvæmda hjá þeim aðilum sem þeir eiga viðskipti við. Neytendastofa mun vinna úr upplýsingunum.
Virk þátttaka og aðhald neytenda skiptir máli varðandi þær verðlagsbreytingar sem ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að skuli koma til framkvæmda 1. mars 2007.
Nánari kynning á framangreindri vefgátt fer fram á blaðamannfundi sem Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra hefur boðað til kl. 14.00 í dag.