Fara yfir á efnisvæði

Mötuneyti grunnskólanna könnun á verðmyndun á mat til skólabarna

02.04.2007

Í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti á matvæli sem tók gildi 1. mars s.l. hefur Neytendastofu borist fjöldi ábendinga vegna verðlagningar á mat til skólabarna í mötuneytum grunnskólanna. Við nánari athugun hjá Neytendastofu hefur komið í ljós að framangreind þjónusta er ýmist rekin beint af grunnskólunum að öllu leyti eða að hluta til, af einkaaðilum eða blöndu af framagreindum aðferðum. Auk þess hefur komið í ljós að skilmálar grunnskóla um verðmyndun og verðlagningu á framangreindri þjónustu eru mjög óljósir eða skortir alveg í sumum tilvikum. Neytendastofa telur mikilvægt að upplýsingar liggi ávallt fyrir um hvort og að hve miklu leyti annar kostnaður en hráefniskostnaður komi fram í verði á seldum mat í mötuneytum grunnskólanna.

Af framangreindum ástæðum hefur Neytendastofa sent bréf til sveitarstjórna með beiðni um að stofnuninni verði sendar upplýsingar um hvert sé hlutfall annars kostnaðar en hráefniskostnaðar í gjaldtöku fyrir seldan mat í grunnskólum landsins. Óskað hefur verið eftir því að framangreindar upplýsingar berist Neytendastofu eigi síðar en 1. maí n.k.



 

TIL BAKA