Fara yfir á efnisvæði

Könnun Neytendastofu á þyngd forpakkninga

28.09.2011

Neytendastofa gerði könnun á þyngd forpakkninga frá sjö framleiðendum og kannaði um leið hvort e-merkið væri notað. Skoðað var kjúklingaálegg, pylsur og skinka eða alls 17 vörutegundir. 

Prófaðar voru fimm e-merktar vörutegundir frá þremur framleiðendum. Reyndist þyngd á vörunum miða við uppgefna þyngd á umbúðunum vera innan skekkjumarka samkvæmt reglum um e-merktar forpakkningar. Ljóst er að kanna þarf betur merkingar á e-merktum vörum til dæmis varðandi nafn pökkunaraðila sem á að koma fram þar sem hann ber ábyrgð á pökkun og merkingum svo sem þyngd.

Einnig kom fram að hjá þremur af fjórum íslenskum framleiðslufyrirtækjum sem ekki nota e-merkið voru frávik á raunmagni meiri en leyfilegt er. Af 12 vörutegundum sem vigtaðar voru hjá þessum aðilum reyndust 6 vörutegundir eða 50% ekki standast kröfur. Undirvigt mældist mest á vörum sem pakkaðar eru hjá Norðlenska matborðinu ehf. bæði í Goða- og Krónupylsum og í brauðskinku en einnig komu upp frávik hjá Sláturfélagi Suðurlands í 10 stk. pylsum og í pylsum frá Kjarnafæði. Í könnuninni kom einnig fram vörur sem voru með yfirvigt í einu tilfelli reyndust allir pakkar sem vigtaðir voru vera með um 40% meira magni af áleggi en uppgefið var á umbúðunum.  Samkvæmt reglum um þyngd á forpökkuðum vörum mega pökkunaraðilar hafa innihald þyngra en uppgefið er þannig að neytendur hljóti góðs af en þeir mega ekki hlunnfara neytendur.

Könnunin sýnir að herða verður eftirlit með forpökkuðum vörum á öllum sviðum markaðarins. Það stuðlar að því að viðskiptahættir séu réttmætir og eflir neytendavernd. Á neytendamarkaði er í sívaxandi mæli seldar forpakkaðar vörur sem ekki eru vegnar í viðurvist neytenda. Ábyrgð á vigt vöru er hjá framleiðendum en þeim ber að tryggja að varan sé vegin á löggiltri vog og raunverulegt magn sé í samræmi við merkingar á umbúðum.

Neytendastofa vill benda framleiðendum á kosti þess að afla viðurkenningar á kerfum framleiðenda til forpakkningar og eftirfarandi e-merkingar á umbúðum í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 437/2009. Á heimasíðu Neytendastofu er að finna drög að reglum til viðurkenningar á kerfum til forpakkninga, sjá hér.

Tekið er á móti umsögnum um drögin á postur@neytendastofa.is og er óskað eftir að þær berist Neytendastofu eigi síðar en 15. október 2011.

TIL BAKA