Fara yfir á efnisvæði

Fjarnámskeið í febrúar 2012

23.02.2012

Fréttamynd

Neytendastofa hélt í fyrsta skipti fjarnámskeið til endurlöggildingar vigtarmanna í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga og Þekkingarnet Austurlands. Um er að ræða tilraunaverkefni sem gerir þátttakendum, sem búa út á landi, auðveldara um vik að sækja námskeiðið.

Að þessu sinni voru nemendur á Þórshöfn og á Vopnafirði en til að geta tekið þátt í námskeiðinu þarf að vera til staðar fjarfundarbúnaður, þar sem námskeiðið fer fram á rauntíma. Einnig þarf að vera starfsmaður á viðkomandi stað sem sér um tæknibúnað og aðra aðstoð m.a. við að sitja yfir þegar próf fer fram.

Námskeiðið gekk að vonum og þegar búið verður leggja endanlegt mat á útkomuna vonast Neytendastofa til að hægt verði að bjóða upp á næsta almenna grunnnámskeið til löggildingar vigtarmanna bæði í húsakynnum Neytendastofu og sem fjarnámskeið. Stefnt verður að því að komast í samband við aðila sem geta tengt sem flesta staði úti á landi í gegnum fjarfundarbúnað Neytendastofu. Með þessu er stofnunin að koma til móts við athugsemdir atvinnulífsins varðandi þann kostnað sem felst í því að senda starfsmenn til Reykjavíkur. Neytendastofa gerir ráð fyrir að þetta fyrirkomulag mælist vel fyrir hjá atvinnulífinu.

Á heimasíðu stofnunarinnar er hægt að fá upplýsingar um inntökuskilyrði á námskeiðin og fleira er þeim tengist eins og tímasetningar næsta námskeiðs og þar er einnig hægt að innrita sig á námskeið. Þar má líka finna og hala niður hluta af námsefninu sem farið er yfir.

 

TIL BAKA