Fara yfir á efnisvæði

Tímabundið sölubann á leikföng

23.09.2013

Starfsmenn Neytendastofu fóru í sex minjagripaverslanir í miðbæ Reykjavíkur vegna ábendingar um að til sölu væru leikföng sem væru ekki í lagi. Alls voru skoðuð 22 leikföng í umræddum búðum og af þeim voru aðeins tvær vörur eða 9% í lagi. Í umræddum búðum var sett tímabundið sölubann á alls 11 vörur en á hinar níu voru gerðar athugasemdir, þar sem farið var fram á afhendingu gagna, en ekki sett á tímabundið sölubann að svo stöddu.

Þær minjagripaverslanir sem hér um ræðir eru The Viking að Laugavegi 1, Rammagerðin ehf. að Hafnarstræti 19, Islandia að Bankastræti 2, Ísbjörninn að Laugavegi 38, Ísey að Laugavegi 23 og Thorvaldsensfélagið að Austurstræti 4.

Í verslun The Viking var sett tímabundið sölubann á a) lunda mjúkdýr (framleiðandi ótilgreindur), b) kind framleidd af Happy day, c) hvítan selkóp framleiddur af Happy day og d) lunda einnig framleiddur af Happy day. Í verslun Rammagerðarinnar var sett tímabundið sölubann á a) Sprella framleiddur af Kozy by Alma, b) Trékýr framleidd af leikfangaverksmiðjunni Stubbur, c) Monstrarnir brúða einnig framleiddir af Kozy by Alma og d) Leikfang til þess að hengja á vagn framleitt af Made by Grandma. Í verslun Ísbjarnarins var sett tímabundið sölubann á Monstrarnir brúða framleidd af Kozy by Alma. Í verslun Thorvaldsensfélagsins var sett tímabundið sölubann á ljóshærða Dúkku (Anna) framleidd af Drífa ehf. Í verslun Islandia og Ísey var ekki sett tímabundið sölubann á neina vöru að svo stöddu.

Vörurnar sem lagt var á tímabundið sölubann voru ekki CE-merktar, en það bendir til að varan sé ekki öruggt leikfang fyrir börn. En eingöngu er heimilt að setja á markað leikföng sem merkt eru með CE-merki. Einnig var nokkuð um að það vantaði framleiðanda, framleiðsluland, varúðarmerkingar auk leiðbeininga.

Athygli skal þó vakin á því að engar tilkynningar hafa borist Neytendastofu um slys af völdum ofangreindra leikfanga.

TIL BAKA