Fara yfir á efnisvæði

Yfirgripsmikil úttekt gerð á raflögnum og rafbúnaði á verkstæðum

16.10.2006

Síðastliðin ár hefur Neytendastofa látið skoða raflagnir á fimmta hundrað verkstæða víðsvegar um landið, bílaverkstæða, véla- og járnsmíðaverkstæða, trésmíðaverkstæða og rafmagnsverkstæða. Markmiðið með skoðununum var að fá sem gleggsta mynd af ástandi raflagna og rafbúnaðar á verkstæðum og koma ábendingum á framfæri við eigendur og umráðamenn þeirra um það sem betur má fara. 
 
Úttekt Neytendastofu leiðir í ljós að raflögnum og rafbúnaði á íslenskum verkstæðum er víða ábótavant. Gerðar voru athugasemdir við merkingu búnaðar í rafmagnstöflum í nær öllum verkstæðum sem skoðuð voru, eða í 91% tilvika. Þá var gerð athugasemd við frágang töfluskápa í 75% skoðana og tengla í 72% tilvika.

Gamall og bilaður rafbúnaður og aðgæsluleysi forráðamanna eru meðal helstu orsaka rafmagnsbruna og því er afar mikilvægt að rafbúnaður á verkstæðum sé ávallt valinn með tilliti til staðsetningar og notkunar. Úr sumum ágöllum má bæta með betri umgengni en flestar athugasemdirnar kalla á fagþekkingu. Eigendur og umráðamenn verkstæða bera ábyrgð á ástandi þess rafbúnaður sem þar er notaður. Því er brýnt að löggiltur rafverktaki yfirfari raflagnir og rafbúnað á verkstæðum svo að öryggi fólks sé tryggt.
  
Skýrslu Neytendastofu um ástand raflagna á verkstæðum verður dreift til allra umráðamanna verkstæða í landinu og til löggiltra rafverktaka.
Skýrsluna má nálgast hér en nánari upplýsingar veita Snæbjörn Kristjánsson og Hallgrímur S. Hallgrímsson hjá Neytendastofu í síma 510 1100.

 

TIL BAKA