Ófullnægjandi verðmerkingar í miðborg Reykjavíkur
Neytendastofa kannaði í júlí ástand verðmerkinga í sérvöruverslunum í miðborginni. Farið var í 202 verslanir og reyndust 136 þeirra með verðmerkingar í ólagi, eða um 67% sem er langt frá því sem telst viðunandi.
Verðmerkingar í sýningargluggum voru almennt verri en inní verslunum. Fatabúðir, skartgripaverslanir og verslanir sem selja íslenskt handverk komu verst út úr skoðun stofnunarinnar í þetta sinn.
Í sambærilegri skoðun í Kringlunni og Smáralind fyrir jól fengu 52% verslana áminningu vegna verðmerkinga. Þeir sem fara ekki eftir ábendingum um úrbætur á verðmerkingum eru sektaðir.
Neytendastofu hvetur verslunareigendur til að bæta vinnureglur svo verðmerkingar í sýningarglugga verði lagfærðar jafnóðum eins og gert er inni í flestum verslunum, það er allra hagur og umfram allt réttur neytenda.
Verðmerkingar eiga að vera í lagi til að tryggja gagnsæi í verðupplýsingum og auðvelda verðsamanburð, það bæði auðveldar neytendum að gera verðsamanburð og stuðlar að sanngirni og samkeppni á markaðnum.
Neytendastofa mun halda áfram verðmerkingaeftirliti sínu og gera athugun hjá fleiri verslunum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu á vefslóðinni www.neytendastofa.is