Skýrsla um bruna og slys af völdum rafmagns 2004 komin út
Skýrslu Neytendastofu (áður Löggildingarstofa) um bruna og slys af völdum rafmagns 2004 má nálgast hér.
Komin er út skýrsla Neytendastofu (áður Löggildingarstofa) yfir bruna og slys af völdum rafmagns árið 2004.
Í skýrslunni eru upplýsingar um bruna og slys sem rafmagnsöryggisdeild Neytendastofu hefur vitneskju um. Fram kemur í skýrslunni að stofnunin skráði 89 bruna af völdum rafmagns á árinu, og er áætlað að það séu um 13 % allra rafmagnsbruna á landinu. Er það svipað og meðaltal undanfarinna ára en nokkur fækkun frá árinu á undan, en þá voru skráðir brunar óvenju margir. Ennfremur áætlar Neytendastofa að eignatjón vegna rafmagnsbruna árið 2004 hafi numið tæpum 311 milljónum króna.
Eitt dauðsfall varð af völdum rafmagnsbruna á árinu, en það er í fyrsta sinn frá 1996 sem mannslát verður vegna rafmagnsbruna. Meðaldánartíðni vegna rafmagnsbruna síðasta áratug er 0,3 dauðsföll á ári. Er það lægri tíðni heldur en er á hinum Norðurlöndunum.
Algengast er að rafmagnsbrunar verði í íbúðarhúsnæði, en þar urðu 63% allra rafmagnsbruna á síðasta ári. Uppruna bruna mátti oftast rekja til raffanga annarra en lýsingar, í alls 67 % tilvika, en lýsing var næst algengasti brunavaldur í 15% tilvika.
Nær allir eldavélabrunar eru vegna aðgæsluleysis eða gleymsku.
Algengustu einstöku brunavaldar voru eldavélar, (37%), rafmagnstöflur og dreifkerfi, (8%), fasttengd flúrlýsing (7%) og sjónvörp (7%). Á heimilum varð liðlega helmingur bruna vegna eldavéla, í langflestum tilvikum vegna vangár eða gleymsku. Aðrir brunavaldar voru langtum fátíðari, með um og innan við 5 7% heimilsbruna hver, en helst má nefna þvottavélar, sjónvörp, rafmagnstöflur og raflagnir, auk færanlegra lampa. Sjónvarpsbrunum fjölgaði verulega árið 2003, en sú fjölgun gekk til baka á síðasta ári. Utan heimila voru brunar algengastir vegna flúrlýsingar ásamt eldavélum, rafmagnstöflum og dreifikerfi, en samtals urðu 39 % bruna utan heimila vegna þessa búnaðar.
Hátt í 50 % bruna vegna rangrar notkunar.
Orsök bruna var í 44% tilvika vegna rangrar notkunar. Í 51% tilvika var orsökin bilun eða hrörnun í búnaðinum sjálfum, en í 3% tilvika vegna lausra tenginga. Með réttri notkun og frágangi hefði því mátt koma í veg fyrir um helming rafmagnsbruna.
Nánari upplýsingar gefa Jóhann Ólafsson og Birgir Ágústsson hjá rafmagnsöryggisdeild Neytendastofu í síma 510 1100.