Ástand verðmerkinga á bensínstöðvum
Í júlí fóru fulltrúar Neytendastofu í Árborg og Hveragerði og skoðuðu 15 bensínstövar. Skoðaðar voru verðmerkingar og hvort eldsneytisdælur (bensín og dísel) væru með löggildingu ásamt því að skoðað var hvort löggildingarmiði væri sýnilegur. Af þessum 15 bensínstöðvum eru fjórar stöðvar með verslun. Í verslununum voru verðmerkingar á söluvörum skoðaðar en sérstök áhersla lögð á kæla auk þess sem borið var saman hillu- og kassaverð á 10 vörum, sem valdar voru af handahófi. Samræmi milli hillu- og kassaverðs var í lagi og verðmerkingar í kælum voru góðar í öllum verslununum.
Þegar verðmerkingar á bensíndælum eru skoðaðar er athugað hvort verð sjáist í söludælu og hvort verðskilti sé sýnilegt, þar sem það á við. Skoðunin leiddi í ljós að verð kemur fram á öllum bensíndælum sem skoðaðar voru. Samkvæmt verðmerkingarreglum á að vera upplýst verðskilti við bensínstöðvar sem selja meira en eina milljón eldsneytislítra á ári. Upplýst verðskilti var ekki til staðar við tvær ómannaðar bensíndælur og því mun stofnunin nú kanna hversu mikil sala fer þar fram og hvort stöðvunum verði gert að setja upp verðskilti.
Sala á eldsneyti á að fara fram á löggiltum eldsneytisdælum og löggildingarmiði á að vera sýnilegur neytendum á aðgengilegan hátt. Á öllum stöðvunum voru bensíndælurnar löggiltar en eitthvað var um að löggildingarmiðar hefðu dottið af. Miðarnir eiga að vera sýnilegir á dælunum þannig að neytandinn geti séð hvenær síðast var farið yfir dæluna o. Því er nauðsynlegt að passa upp á að löggildingarmiðarnir séu á dælunum.
Neytendastofa mun halda áfram eftirliti sínu og gera athugun á fleiri stöðum. Neytendur geta komið ábendingum á framfæri í gegnum rafræna Neytendastofu.