Verðmerkingum í sýningargluggum stóru verslanamiðstöðvanna hrakar
Oft berast starfsmönnum Neytendastofu ábendingar um að verslunareigendur séu ekki að standa við skyldu sína að verðmerkja vörur í verslun og glugga, t.d. í gegnum ábendingakerfi á heimasíðu okkar www.neytendastofa.is . Farið er reglulega í umfangsmikið eftirlit til að minna verslunareigendur á þessa skyldu sína og eru þeir sem ekki fara eftir ábendingum um úrbætur á verðmerkingum sektaðir. Í lok nóvember sl. fóru fulltrúar Neytendendastofu í slíkt eftirlit í sérverslanir í Kringlunni og Smáralind
Í Kringlunni og Smáralind voru verðmerkingar í sýningargluggum ívið skárri en í miðbæ Reykjavíkur sjá frétt frá 15.desember , en hafði þó hrakað mikið frá könnun sem gerð var í vor. Í Kringlunni var farið í 102 verslanir og voru 77 af þeim með sýningarglugga. Var verðmerkingum ábótavant eða þær ekki til staðar hjá 28% þeirra verslana sem voru með sýningarglugga. Þetta er mikil afturför frá fyrri könnun en þá vantaði upp á verðmerkingar í glugga hjá 13% verslana. Smáralind var með svipaðar tölur í þessari könnun, farið var í 68 verslanir þar af voru 54 með sýningarglugga. Vantaði upp á verðmerkingar í glugga hjá 27% af þeim verslunum sem eru með sýningarglugga, samanborið við 13% í fyrri könnun. Eins og í miðbænum báru margir verslunareigendur fyrir sig að það væri nýbúið að skipta um gluggaútstillingu, en sú afsökun dugar skammt þar sem ekki á að taka langan tíma að lagfæra verðmerkingar í sýningargluggum og best væri að gera það um leið og stillt er út nýjum vörum.
Verðmerkingar inni í verslunum voru hins vegar í lagi hjá flestum, í Kringlunni voru 96 verslanir af 102 með verðmerkingar í lagi eða viðunandi en í Smáralind var ástandið enn betra en þar voru 66 verslanir af 68 með verðmerkingar í lagi eða viðunandi. Í vor var hinsvegar einungis sett út á verðmerkingar í einni verslun á hvorum stað svo enn er rúm til að bæta sig.
Hvetjum við verslunareigendur til að bæta vinnureglur svo verðmerkingar í sýningarglugga verði lagfærðar jafnóðum eins og gert er inni í flestum verslunum, það er allra hagur og umfram allt réttur neytenda.