Fréttatilkynning
Neytendastofa telur mikilvægt að neytendafræðsla í skólum verði efld. Í því skyni hefur Neytendastofa sett á fót neytendafræðsluráð sem er henni til ráðgjafar og aðstoðar hvernig sé unnt að efla gerð kennsluefnis og auka neytendafræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins m.a. innan lífsleikni samkvæmt aðalnámsskrá. Í starfi neytendafræðsluráðsins taka þátt fulltrúar tilnefndir af félagi kennara í lífsleikni í framhaldsskólum og Neytendasamtökunum, auk fulltrúa Neytendastofu.
Í því skyni að efla þekkingu á málum er varða neytendur hefur Neytendastofa fengið frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á ensku bókina “Europa Diary” sem notuð er til enskukennsla í ýmsum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í samstarfi við félag lífsleiknikennara framhaldsskólanna var ýmsum skólum boðin bókin án greiðslu til notkunar sem ítar– og stuðningsefni við lífsleikni- og enskukennslu. Alls hefur um 1500 bókum verið dreift til sex framhaldsskóla en þeir eru: Kvennaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn á Akureyri, Fjölbrautaskóli Austur-Skaftafellssýslu og Borgarholtsskóli. Þess er vænst að þetta verkefni skili sér ekki eingöngu í góðri enskukunnáttu nemenda heldur samtímis fræðast þeir um réttindi og skyldur neytenda á hinum sameiginlega innri markaði í Evrópu. Bókina má einnig nálgast á vefslóðinni http://www.generation-europe.org/docs/Edito_uk.pdf.
Neytendastofa telur að nauðsynlegt sé að auka enn frekar neytendafræðslu á öllum skólastigum landsins ekki síst í grunnskólum en nú þegar er til margvíslegt kennsluefni fyrir það skólastig. Nánari upplýsingar er einnig að finna á heimasíðu Neytendastofu www. neytendastofa. is.
Reykjavík 27. ágúst 2007.