Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu vegna viðskiptahátta Orkusölunnar staðfest

13.06.2013

Orkuveita Reykjavíkur kvartaði til Neytendastofu yfir viðskiptaháttum Orkusölunnar við sölu á rafmagni. Kvörtunin snéri að tölvupósti sem sendur var félagsmönnum íþróttafélagsins Stjörnunnar þar sem þeir voru hvattir til að skipta um raforkusala og færa sig til Orkusölunnar, m.a. með loforði um 5.000 kr. sparnað á ári miðað við meðal einbýlishús. Orkusölunni tókst ekki að sanna fullyrðingu um 5.000 kr. sparnað og því tók Neytendastofa ákvörðun um að félagið hafi brotið gegn lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

Orkusalan kærði ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála m.a. á þeirri forsendu að fullyrðingin hafi verið frá Stjörnunni komin en ekki Orkusölunni. Í úrskurði áfrýjunarnefndar segir m.a. að Orkusalan sé það fyrirtæki sem stundi atvinnurekstur og veiti þá þjónustu sem kynningin snéri að og ákvæði laga um óréttmæta viðskiptahætti takmarkist ekki við beina markaðssetningu slíkra fyrirtækja. Af ákvæðum laganna leiði að fyrirtæki verði að hafa visst eftirlit með kynningu á þjónustu sinni sem virðist ekki hafa verið gert í þessu tilviki. Áfrýjunarnefndin telji Neytendastofu því hafa verið heimilt að grípa til aðgerða gegn Orkusölunni.

Úrskurð áfrýjunarnefndar í máli nr. 19/2012 má lesa hér.

 

TIL BAKA