Framsetning á verðlækkun N1
N1 bauð neytendum 13 kr. afslátt af dæluverði eldsneytis á svokölluðum Krúserdögum sem félagið hélt. Skeljungur kvartaði yfir því að í auglýsingum N1 kom fram að veittur væri afsláttur af dæluverði en þegar eldsneytinu var dælt lækkaði verðið ekki frá því sem fram kom á verðskilti. Skeljungur kvartaði einnig yfir því að afslátturinn hafi verið villandi fyrir þá sem væru með dælulykil eða afsláttarkort því þeir fengju ekki sína sérstöku afslætti til viðbótar.
Í reglum um verðmerkingar á bifreiðaeldsneyti kemur fram að á verðskilti eigi ávallt að koma fram lægsta almenna verð. Því taldi Neytendastofa að N1 hefði verið rétt að tilgreina afsláttarverðið á verðskilti. Neytendastofa taldi hins vegar að vegna reglnanna og framsetningar á sölustað hafi verið villandi að kynna verðlækkunina sem afslátt frá dæluverði því vitað væri að dæluverð kæmi ekki til með að lækka frá verðskilti.
Neytendastofa féllst hins vegar ekki á það með Skeljungi að lykil- og korthafar N1 hafi fengið villandi upplýsingar enda var þeim gerð sérstök grein fyrir því.
Ákvörðun nr. 22/2012 má lesa hér