Veitingasölur og söfn bæta verðmerkingar
Dagana 16. og 17. september sl. fylgdi Neytendastofa eftir ferð sinni á söfn og veitingasölur á söfnum sem farin var í ágúst sl. Farið var á eitt safn og fjórar veitingasölur sem ekki höfðu verðmerkt sem skyldi þegar fyrri könnun var gerð, en búið var að loka veitingasölu á Árbæjarsafni yfir veturinn. Skoðað var hvort aðgangseyrir safns væri tilgreindur og söluvörur verðmerktar, einnig hvort vörur í kæli og borði veitingasala væru verðmerktar.
Hönnunarsafn Íslands hafði tekið vel í tilmæli okkar og sett upp verðskrá yfir aðgangseyri, söluvörur þar voru vel verðmerktar sem fyrr. Verðmerkingar voru einnig komnar í lag hjá kaffiteríunni Gerðarsafni, Súpubarnum í Listasafni Reykjavíkur og Kaffitári í Þjóðminjasafninu.
Oft er nægilegt að gefa fyrirtækjum áminningu um að lagfæra verðmerkingar eins og í fyrrgreindum tilvikum en Neytendastofa hefur vald til að beita sektum ef þörf þykir og stjórnendur fyrirtækja bregðast ekki við sem skyldi. Tekið er á móti ábendingum í gegnum heimasíðu okkar www.neytendastofa.is og hvetjum við neytendur til að láta okkur vita ef þeir telja brotið á rétti sínum.