Fara yfir á efnisvæði

Innköllun á hættulegum lömpum

16.03.2007

Neytendastofa innkallar hættulega borðlampa (hugsanlega standlampa einnig) sem seldir voru af Geymslusvæðinu ehf. (sala varnarliðseigna) á síðari helmingi síðasta árs, 2006, t.d. í Blómavalshúsinu við Sigtún í Reykjavík. Um er að ræða „ameríska“ lampa frá varnarliðinu sem staðsett var á Keflavíkurflugvelli. Skoðun á vegum öryggissviðs Neytendastofu hefur leitt í ljós að af viðkomandi lömpum getur stafað hætta á raflosti.

Rafföng: Borðlampar (hugsanlega standlampar einnig) fyrir skrúfaðar perur, t.d. hefðbundnar glóperur.

Vörumerki / Tegund: Um er að ræða margar gerðir sem flestar eru illa eða ekki merktar nafni framleiðanda eða vörumerki hans og gerðarmerkingu. Sumar gerðir bera strikamerki merkt varnarstöðinni í Keflavík („US Naval Air Station Keflavik Billeting“).

Söluaðili á Íslandi: Geymslusvæðið ehf (sala varnarliðseigna), t.d. selt í Blómavalshúsinu við Sigtún í Reykjavík.

Hætta: Hætta á raflosti. Um er að ræða lampa sem gerðir eru fyrir amerískan markað og rafkerfi og henta ekki hér á landi (í Evrópu). Peruhöldur lampanna eru öðruvísi en í lömpum fyrir evrópskan markað og af þeim sökum er leiðandi hluti perunnar (skrúfugangur) snertanlegur við venjulega notkun/umgengni, t.d. við peruskipti. Þessi hluti perunnar getur orðið spennuhafa og því er hætta á raflosti við venjulega notkun lampanna. Neytendastofa gerir fleiri athugasemdir við öryggi viðkomandi lampa en þetta er sú alvarlegasta.

Hvernig er hægt að þekkja rafföngin: Sjá myndir af nokkrum gerðum. Peruhaldan er öðruvísi og „grynnri“ en almennt gerist með lampa hér á landi (sjá mynd), þ.a. skrúfugangur perunnar stendur upp úr höldunni eftir að pera hefur verið skrúfuð í. Vöntun CE-merkingar gæti einnig bent til að lampinn væri ekki ætlaður á evrópskan markað. 

Hvað eiga eigendur slíkra raffanga að gera: Að hætta notkun þeirra og skila til söluaðila, Geymslusvæðisins ehf, Kapelluhrauni við Reykjanesbraut í Hafnarfirði eða í Blómavalshúsinu við Sigtún í Reykjavík.

Frekari upplýsingar veitir öryggissvið Neytendastofu, s.510 1100.

       

     


 

TIL BAKA