Fara yfir á efnisvæði

Verðmerkingar sérvöruverslana í Spönginni til fyrirmyndar

22.12.2009

Nú þegar mesti annatími verslana er runninn upp, þá skiptir miklu máli bæði fyrir viðskiptavini og ekki síður starfsmenn að allar vörur séu vel og sýnilega verðmerktar. Fulltrúar Neytendastofu hafa í desember verið að taka út verðmerkingar í verslunum og sýningargluggum sérvöruverslana í helstu þjónustukjörnum  á höfuðborgarsvæðinu. Dagana 17. – 18.desember fóru fulltrúar Neytendastofu í eftirlitsferð í Mjóddina, Spöngina, Fjörðinn og Strandgötuna í Hafnarfirði. Í heildina var farið í 44 fyrirtæki og voru 27 þeirra með vörur í sýningarglugga.

Í Mjóddinni var farið í 13 fyrirtæki og voru 77% með verðmerkingar í verslun í góðu lagi, en 23% tilfella voru verðmerkingarnar viðunandi. Af þessum 13 verslunum voru sjö þeirra með vörur í sýningarglugga og var ástandið í gluggunum með ágætasta móti en einungis  Bíbí og blaka var með óverðmerktar vörur í sýningarglugganum.

Eins og í könnun Neytendastofu frá því í vor voru verðmerkingar í Spönginni með allra besta móti og góð fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki í landinu. Farið var í sex sérvöruverslanir í Spönginni og var engin athugasemd gerð, hvorki við verðmerkingar í verslun né í sýningargluggum.

Í Firðinum, Hafnarfirði var farið í 16 fyrirtæki og þar af voru 12 þeirra með vörur í sýningarglugga. Almennt voru verðmerkingar inn í verslununum í lagi, Úr og gull var eina verslunin þar sem að verðmerkingum inn í verslun var ábótavant. Því miður var ástandið ekki eins glæsilegt þegar kom að verðmerkingum í sýningargluggum en þar voru einungis 33% sérvöruverslana með verðmerkingar í góðu lagi en það voru verslanirnar, Herra Hafnarfjörður, Mind, Miss Perfect og Úr og gull.

Farið var í níu verslanir á Strandgötunni í Hafnarfirði. Verðmerkingar voru i lagi inní í öllum verslunum. En dæmið snerist alfarið við þegar kom að verðmerkingum í sýningargluggum sex verslana. Hjá Eymundsson var verðmerkingum ábótavant en hjá Andreu, Kaki og Siggu & Timo voru vörurnar óverðmerktar í gluggunum. Verslanirnar HB búðin og Nonni gull voru þó með verðmerkingar í sýningargluggunum í góðu lagi.

Neytendastofa hvetur verslunareigendur til að haga verklagi með þeim hætti að verðmerkingar í sýningargluggum verði jafn sjálfsagður hlutur eins og verðmerkingar í versluninni sjálfri, enda er það allra hagur og sjálfsagður réttur neytenda.

TIL BAKA