Fara yfir á efnisvæði

Réttur neytenda til að sjá verð í sýningargluggum brotinn

15.12.2009

Verslunareigendur eru skyldugir til að hafa verðmerkingar skýrar og vel sýnilegar, sbr. lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og reglur um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar hvort sem það er inni í verslun eða í sýningarglugga. Í byrjun desember fóru fulltrúar Neytendastofu í slíka eftirlitsferð í sérverslanir í miðbæ Reykjavíkur. Skoðað var hvort verðmerkingar inni í verslunum sem og í sýningargluggum væru sýnilegar. Farið var í 152 verslanir og af þeim voru 138 með sýningarglugga fyrir vörur sínar.

Í miðbænum voru verðmerkingar svipaðar og í könnun sem gerð var í vor. Aðeins tvær verslanir af þeim 152 sem voru skoðaðar voru beðnar að laga verðmerkingar hjá sér, Gull og silfur Laugavegi 52 og Guðbrandur Jezorski gullsmiður Laugavegi 48, á báðum stöðum var verðmerkingum inni í verslun ábótavant og óverðmerkt í glugga.

Þrátt fyrir góðar verðmerkingar inni í flestum verslunum, var allt önnur staða á verðmerkingum í sýningargluggum. Líkt og í vor var verðmerkingum í glugga ábótavant eða þær ekki til staðar í allt of mörgum verslunum eða 42%, þar af voru 32% eða 44 verslanir með óverðmerkt í gluggum sínum . Greinilegt er að verslunareigendur á þessu svæði verða að fara að taka sig á í þessum málum, ástandið er alls ekki nógu gott. Það má taka það fram að í mörgum tilfellum var nýlega búið að skipta um útstillingu í glugga verslana en þó er augljóst að verslunareigendur leggja ekki áherslu á að verðmerkja vörur á sýnilegan hátt um leið og það er gert. Úr þessu verða þeir að bæta og fá 58 verslanir áminningu um að bæta verðmerkingar í sýningarglugga. Vonumst við til að verslunareigendur bregðist hratt og vel við og virði rétt neytenda til að sjá verð á vörum í sýningargluggum sem og inni í verslun.

TIL BAKA