Toyota á Íslandi innkallar bifreiðar
24.10.2012
Neytendastofu hefur borist tilkynning frá Toyota á Íslandi um innköllun á alls 3690 bifreiðum. Um er að ræða innköllun á bifreiðum af gerðinni Auris, Corolla, RAV4 og Yaris allar framleiddar á tímabilinu 2006 til 2008.
Hnappar í stjórnborði fyrir rúður í bílstjórahurð geta stirðnað, ef reynt er að smyrja þá með venjulegum sprautanlegum smurefnum geta þau borist í snertur í rofunum. Við mikið álag á rofana geta venjuleg smurefni hitnað við snerturnar og myndað reyk sem leggur inn í farþegarýmið. Þjónustuaðilar Toyota munu smyrja hnappana með sérstakri hitaþolinni feiti til að koma í veg fyrir þetta.
Viðkomandi bifreiðareigendur munu fá sent bréf vegna þessarar innköllunar.