Fara yfir á efnisvæði

Eftirlit með vogum í matvöruverslunum

09.09.2013

Fréttamynd

Neytendastofa hefur skoðað undanfarið ástand löggildingar voga í matvöruverslunum. Þar er átt við vogir sem notaðar eru til að vigta vörur og verðleggja þær. Löggilda á vogir sem notaðar eru til verðlagningar í verslunum á tveggja ára fresti. Við löggildingu á vogum er sannreynt að vogin sé að vigta rétt.

Skoðað var í Hveragerði, í Árborg og á höfuðborgarsvæðinu alls hjá 83 matvöruverslunum og gerðar athugasemdir við vogir í fimm verslunum.

Skoðaðar voru 437 vogir og voru athugasemdir gerðar við 18 vogir hjá fimm aðilum þar sem löggilding var runnin úr gildi. Athugasemdir voru gerðar hjá Mini Market í Drafnarfelli, Krónan í Rofabæ, Plúsmarkaðurinn í Hátúni, Bónus í Holtagörðum og Nóatún í Hamraborg.

Til staðfestingar á löggildingunni er settur á áberandi stað límmiði sem segir til um gildistíma löggildingarinnar. Viðskiptavinurinn á að geta séð auðveldlega á miðann. Algengast er að vogirnar séu við afgreiðslukassana en eins eru vogir sem verðmerkja staðsettar í kjöt- og fiskiborðum nokkurra verslana. Þar á viðskipavinurinn einnig að geta séð auðveldlega á löggildingarmiðann.

TIL BAKA