Fara yfir á efnisvæði

Verðkönnun og skoðun Neytendastofu á ástandi verðmerkinga í ísbúðum

23.07.2008

Dagana 18. – 22. júlí sl. gerði Neytendastofa verðkönnun og athugun á ástandi verðmerkinga í ísbúðum. Í þessari könnun voru athugaðar allar ísbúðir á höfuðborgar- og Árborgarsvæðinu auk valinna verslana sem selja ís úr vél á sama svæði. Úrtakið var því 24 verslanir.
Athuguninni var skipt í tvo flokka. Annars vegar var ástand verðmerkinga kannað og hins vegar var framkvæmd verðkönnun á algengustu ístegundum.

Samanburður þótti raunhæfastur þegar verð á ís í 1 lítra boxi var skoðað, þó svo að aðrar tegundir hafi einnig verið teknar út. Tuttugu og tvær af þeim tuttugu og fjórum verslunum sem skoðaðar voru seldu ís í lítra boxi. Verðkönnun leiddi í ljós að lægsta verð á ís úr vel í lítra boxi var 488 kr. og hæsta verð 890 kr. Munur á hæsta verði og því lægsta var því 402 kr., eða 82% verðmunur. Meðalverð í þeim ísbúðum sem kannaðar voru var 674 kr. lítrinn.
Við könnun á verði á barnaís var erfiðara að gera hreinan samanburð, því ekki er alltaf um sömu mælieiningu að ræða. Ódýrasti barnaísinn kostaði 75 kr., en sá dýrasti 240 kr. Munurinn er því 165 kr. eða 220%. Meðalverð á barnaís á þeim 24 stöðum sem heimsóttir voru var 157 kr.

Verðmerkingar voru á flestu stöðum í mjög góðu lagi. Á fjórum stöðum var verðmerkingum ábótavant og á einum stað var algjörlega óverðmerkt. Fimm staðir fá því skriflega ábendingu frá Neytendastofu um hvað megi betur fara í verðmerkingum.
Neytendastofa mun halda áfram verðmerkingareftirliti sínu og verðkönnunum og gera athugun hjá fleiri verslunum. Á rafrænni Neytendastofu geta neytendur sent Neytendastofu ábendingar um verslanir þar sem verðmerkingum er ábótavant. Vefslóðin er www.neytendastofa.is.

TIL BAKA