Skýrsla um bruna og slys vegna rafmagns 2001 komin út
Komin er út skýrsla Löggildingarstofu yfir bruna og slys af völdum rafmagns árið 2001. (Pdf, Word). Í skýrslunni eru upplýsingar um bruna og slys sem rafmagnsöryggisdeild Löggildingarstofu tók þátt í að rannsaka árið 2001. Fram kemur í skýrslunni að stofnunin áætlar að rafmagnsbrunar hafi verið 887 talsins á árinu og eignatjón vegna þeirra numið um 850 milljónum króna. Algengast er að rafmagnsbrunar verði í íbúðarhúsnæði, en þar urðu 62% allra bruna. Orsök bruna var í 46% tilvika vegna rangrar notkunar. Í 42% tilvika var orsökin bilun eða hrörnun í búnaðinum sjálfum, en í 11% tilvika vegna lausra tenginga sem valda neistamyndun. Brunar vegna eldavélum voru langalgengasta einstaki flokkur rafmagnsbruna, en 37% allra rafmagnsbruna voru vegna þeirra. Nánast allir eldavélabrunar verða vegna mannlegra orsaka, svo sem aðgæsluleysis og rangrar notkunar. Dæmigert er að pottur gleymist á eldavélarhellu. Næst algengustu rafmagnsbrunarnir, eða 16%, voru vegna rafmagnstöflu og raflagna í neysluveitum en orsök þeirra var jöfnum höndum lausar tengingar og bilanir. Aðrir algengir upprunastaðir bruna eru ísskápar, þvottavélar, uppþvottavélar, lausataugar, rafeindatæki (oftast sjónvarpstæki), lampar og ýmis varmamyndandi tæki, með á bilinu 1-5% rafmagnsbruna hver. Með réttri notkun hefði mátt koma í veg fyrir stóran hluta rafmagnsbruna (46%). Gera má ráð fyrir að orsök þeirra rafmagnsbruna sem ekki eru skráðir hjá Löggildingarstofu skiptist á svipaðan hátt og í skráðum brunum og hefði því mátt koma í veg fyrir u.þ.b. 400 tjón á síðasta ári með réttri notkun og aðgæslu, eða liðlega eitt tjón á dag að jafnaði. Löggildingarstofa rannsakar og skráir upplýsingar um slys af völdum rafmagns. Sl.áratug urðu 0,3 banaslys vegna rafmagns að meðaltali ár hvert, en eitt banaslys varð á síðasta ári. Flest slysanna urðu vegna mannlegra orsaka, eða 80%. Þriðjungur hinna slösuðu voru rafveitumenn, tæpur fjórðungur rafiðnaðarmenn en tæpur helmingur leikmenn.