Fara yfir á efnisvæði

Átaki í öryggi kveikjara lokið

28.11.2012

Fréttamynd

Hinn 8. nóvember sl. var haldin lokaráðstefna PROSAFE í átaksverkefni samtakanna vegna kveikjara og niðurstöður kynntar. En PROSAFE er samstarfsnet evrópskra stjórnvalda á sviði vöruöryggis.  Átakið hefur staðið yfir í tæp sex ár. Markmiðið var að eingöngu öruggir kveikjarar með barnalæsingum væru markaðssettir og koma þátttakendur verkefnisins frá 17 aðildarríkjum ESB en auk þess tóku 12 ríki óbeinan þátt. Skoðaðir voru kveikjarar hjá um átta þúsund smásölum, heildsölum, innflytjendum og framleiðendum. Auk þess voru gerðar 850 skoðanir hjá tollyfirvöldum á kveikjurum frá ríkjum utan ESB.  Þessar skoðanir leiddu til ítarlegri könnunar á yfir 5.000 kveikjurum.

Skoðanirnar fólu í sér allt frá könnun á leiðbeiningum og viðvörunum yfir í ítarlegar prófanir á rannsóknarstofum. Helstu niðurstöður voru að engar athugasemdir voru gerðar við 3.721 kveikjara eða 73% kannaðra kveikjara. Í fyrri könnunum var þetta hlutfall 69%. Af þeim kveikjurum sem gerðar voru athugasemdir við reyndust 295 þeirra ekki uppfylla kröfur ISO 9994 staðalsins, 101 þeirra reyndist ekki standast kröfur um barnalæsingar, 480 stóðust ekki aðrar kröfur en að lokum voru 516 kveikjarar sem ekki stóðust ótilgreindar kröfur.

Prosafe valdi jafnframt 74 tegundir kveikjara til þess að senda til prófunar hjá faggiltum prófunarstofum og voru helstu niðurstöður að engar athugasemdir voru gerðar í 53% prófana en í fyrri prófunum var það hlutfall 35% og því ljóst að öryggi kveikjara hefur farið verulega batnandi með tilkomuverkefnisins og meðvitundar framleiðanda um slíkt átak. Til að mynda hafði hlutfall alvarlegra athugasemda, þar sem öryggi kveikjara var verulega ábótavant, lækkað úr 35% í 9% á um tveggja ára tímabili.
 
Vegna verkefnisins hefur Neytendastofa sótt fundi erlendis með öðrum þátttakendum þar sem m.a. voru kynntar niðurstöður kannana hérlendis. Á Íslandi voru aðgerðir vegna verkefnisins í minna lagi en hjá öðrum þátttakendum en það stafar af smæð markaðarins. Engu að síður gekk Neytendastofa meðal annars í samstarf með tollyfirvöldum og á um 2 mánaða skeiði voru allar sendingar til landsins sem innihéldu kveikjara teknar upp og innihaldið skoðað með tilliti til öryggiskrafna. Leiddi sú skoðun ekki í ljós neina ágalla innfluttra kveikjara. Einnig voru gerðar kannanir á því hvort seldir væru kveikjarar með óvenjulegt útlit, þ.e. kveikjarar sem höfðu annað útlit en kveikjara, og leiddu þær kannanir í ljós eitt tilvik þar sem slík vara var seld. Var hún tekin af markaði um leið. Þótti því sýnt að staðan á öryggi kveikjara á Íslandi væri góð.

Bæði fyrri og seinni hluti kveikjaraverkefnisins hafa verið brautryðjandi í samvinnu aðildarríkja ESB/EES og hafa leitt til margvíslegs verklags sem nú hefur verið innleitt í önnur verkefni á vegum Joint Actions hjá PROSAFE. Þetta kveikjaraverkefni hefur jafnframt leitt til þróunar ýmissa tóla sem eru gagnleg fyrir þau markaðsyfirvöld sem taka þátt í aðgerðum vegna kveikjara.
Kveikjararnir voru prófaðir á faggiltum prófunarstofum. Prófanir voru miðaðar að öryggiskröfum sem hafa hvað mest áhrif á öryggi neytandans. Þær prófunarkröfur sem voru gerðar í prófunum 2011-2012 eru jafnframt ekki að öllu leyti þær sömu og voru í prófunum á árinu 2009.

TIL BAKA