Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu vegna viðskiptahátta við lánveitingu

13.07.2011

Neytendastofu barst erindi vegna viðskiptahátta Gildis lífeyrissjóðs við lánveitingu. Erindið var tvíþætt þar sem annars vegar var kvartað yfir því að skv. skilmálum lánsins skyldu afborganir þess tengdar vísitölu neysluverðs en í framkvæmd hafi það verið tengt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Hins vegar var kvartað yfir því að lánveitandi hafi ekki kynnt lántaka frá því að með því að taka lánið þann 27. maí í stað 1. júní myndi endurgreiðsla lánsins hækka um tæpar 700.000 kr. vegna hækkunar á vísitölu.

Neytendastofa taldi ekki ástæðu til að gera athugsemdir við vísitölutengingu lánsins enda komi skýrt fram í lögum að þegar afborganir lána séu tengdar vísitölu neysluverðs skuli notast við vísitöluna tveimur mánuðum síðar. Á vefsíðu Hagstofu Íslands er vísitala neysluverðs sett upp bæði með hefðbundnum hætti og með tveggja mánaða seinkun undir heitinu vísitala neysluverðs til verðtryggingar. Við verðtryggingu lána er því rétt að notast við þá vísitölu sem á vef Hagstofunnar er nefnt vísitala neysluverðs til verðtryggingar.

Vegna síðarnefndu kvörtunarinnar taldi Neytendastofa Gildi hafa brotið gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með því að gera lántakanum ekki grein fyrir verðandi hækkun. Eins og atvikum var háttað í málinu taldi Neytendastofa að Gildi hafi verið ljóst, eða mátt vera það ljóst, að veruleg hækkun yrði á endurgreiðslu lánsins væri það tekið í lok maímánaðar í stað byrjun júnímánaðar. Gildi hafi því borið að leiðbeina lántaka um afleiðingar þess að taka lánið á þeim tíma sem það var gert.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA